151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

börn á biðlistum.

[13:16]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Förum aðeins yfir þetta. 900 börn á barna- og unglingageðdeild, 150 börn á biðlista þar, allt að átta mánaða biðtími. 340 börn á biðlistum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem sinnir börnum með alvarlegar þroskaskerðingar. Þar er allt að 24 mánaða biðtími sem hefur lengst á vakt þessarar ríkisstjórnar. 600 börn á biðlista á þriðju lykilstofnuninni sem sinnir veikum börnum, Þroska- og hegðunarstöð. Allt að 18 mánaða biðtími þar sem hefur einnig lengst á vakt þessarar ríkisstjórnar. 9% ungmenna á Íslandi hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Þetta svarar til þess að í 22 barna skólabekk hafi tveir nemendur reynt að fremja sjálfsvíg. Geðlæknir á BUGL sagði nýverið að há sjálfsvígstíðni barna væri ekki tilviljun heldur langtímaafleiðingar sparnaðar í forvörnum og úrræðaleysis í kerfinu.

Herra forseti. Af hverju er ekki allt samfélagið að ræða þessar skelfilegu tölur? Samt glíma þessar barnastofnanir við fjárskort en það er ekki eins og þær kosti mikið. Kostnaður hjúkrunar allra barna á legudeild BUGL er minni en einn tíundi af því sem við setjum í sendiráðin okkar. Greiningar- og ráðgjafarstöðin kostar minna en einn tíunda af opinberri niðurgreiðslu nautgriparæktar og Þroska- og hegðunarstöð kostar minna en Landmælingar Íslands. Ætlið þið að segja mér að við getum ekki gert betur? Börn á bið er böl og til skammar og meðan hundruð barna eru á biðlista á vakt þessarar ríkisstjórnar getur ríkisstjórnin ekki stært sig af því að vera barnvæn ríkisstjórn.

Því spyr ég fyrsta skilgreinda barnamálaráðherra Íslands: (Forseti hringir.) Hvað ætlar þú að gera í þessu? Hefur þú ekki áhyggjur af börnum á biðlistum?

(Forseti (SJS): Forseti minnir þingmenn á að beina máli sínu til forseta en ekki ávarpa ráðherra beint.)