151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má nefnilega ekki gleyma að þau verkefni sem verður að fara í eru verkefni til sjálfbærrar framtíðar og það eru gríðarlega verðmæt verkefni þannig að ég lít ekki svo mikið á það sem kostnað að leggja til þessa fjármuni. Ég kom hér upp kannski aðallega af því að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kvartaði undan því í gær að Píratar og Samfylkingin væru ekki með sömu tölu í þessum málaflokki, það væri eitthvert rugl þarna á milli. En eins og hv. þingmaður fór yfir þá er þetta ákveðin sýn á það hvað þörf er fyrir og áætlun upp á það að gera. Áætlunin sem ég gerði var mjög bjartsýn. Píratar leggja til 4 milljarða og þá horfi ég einfaldlega á að lagðir eru til 10 milljarðar að meðaltali á ári til að ná 40% árangri, það þýðir um 4 milljarðar fyrir hvert prósent. En svo er lagður til 1 milljarður fyrir 15%. Það passar ekki. Segjum sem svo að það sé rétt að það þurfi 10 milljarða á ári til að ná 40% samdrætti. Ef það er rétt þá þyrfti a.m.k. það til að ná sama samdrætti, sem sagt 1 milljarð fyrir hver 4%. Ég geri ráð fyrir því að það sé erfiðara að ná þessum samdrætti fyrir sama fjármagn, það séu erfiðari verkefni, dýrari verkefni fyrir minni árangur. Þannig að ég geri ráð fyrir því að milljarður nái svona 3% í samdrætti, ekki 4%. Ef það á að ná 15% þá eru það 4 milljarðar kr. af því að það er búið að leggja til 1 milljarð, það eru 4 plús 1, þannig að það eru samtals 5 milljarðar til að ná þessum 15% samdrætti. Þetta er bara það sem vantar upp á samkvæmt aðgerðaáætluninni miðað við þann útreikning og þær forsendur, alls ekki endilega það sem er nóg né heldur segir það neitt til um ábatann af þeim verkefnum sem eru lögð til til að ná þessum árangri.