151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er afar áhugavert. Ég verð nú að viðurkenna að þegar talnaleikfimin stóð sem hæst þá var ég farinn að missa þráðinn, enda erum við að bera saman hér þingmann sem gekk í gegnum skólakerfið úr raungreinadeild annars vegar og hins vegar úr félagsfræðideild. En ég held að við saman getum komist að líkum niðurstöðum og það sýna auðvitað tillögur Pírata og Samfylkingarinnar, við erum kannski ekki að hugsa þetta ólíkt. En mér fannst áhugavert það sem hv. þingmaður talar um, að þetta sé ekki kostnaður, þetta sé sparnaður til framtíðar. Það er akkúrat hárrétt að líta á þetta þannig. Alveg eins og í efnahagsmálunum. Afkomubætandi ráðstafanir, sem ríkisstjórnin kallar svo, sem er niðurskurður, eru í rauninni dýrara fyrir samfélagið til framtíðar, alveg eins og það að leyfa 6% atvinnuleysi að grassera til langrar framtíðar er kostnaðarsamara fyrir samfélagið. Mér finnst jafnvel færustu hagfræðingar og efnahagssérfræðingar okkar stundum falla í þá gryfju að horfa bara á skammtímaáhrifin. Þannig talaði t.d. seðlabankastjóri um það nýlega að ein af ástæðum spíralsins sem er núna á húsnæðismarkaðnum væri hvernig höfuðborgin hefði ákveðið að byggja upp og þétta byggð en ekki að dreifa byggðinni út um allar koppagrundir og var þá hugsanlega kannski að velta ábyrgðinni af sér fyrir að hafa ekki sett einhver skilyrði fram samhliða vaxtalækkunum og yfir á einhvern annan. Byggðaáform höfuðborgarinnar eru einmitt gott dæmi um hvernig sparast til framtíðar, ekki bara fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem geta sparað einkabílinn, ekki bara í því að það þarf að leggja styttri lagnir og færri götur og að hirða minni lóðabletti, heldur sparar þetta líka svo gríðarlega mikið þegar kemur að loftslagsmálunum. Þannig eigum við að hugsa. Við eigum að vera í langtímahugsun en ekki skammtímahugsun eins og núverandi ríkisstjórn.