151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það er augljóslega nokkuð liðið á þessa seinni umræðu um fjármálaáætlun sem er auðvitað sérstakrar gerðar, eðli máls samkvæmt, ný ríkisstjórn tekur við í haust og auðvitað ber fjármálaáætlunin nokkur merki þess að menn séu meðvitaðir um að þetta plagg sé meira til að uppfylla lög um opinber fjármál heldur en að það verði hinn eiginlegi leiðarvísir inn í næsta kjörtímabil.

Ég verð að taka smá útúrdúr frá þeim atriðum sem ég ætlaði að fara í hér í ræðu minni í ljósi umræðunnar sem átti sér stað rétt áðan hjá hv. þm. Smára McCarthy í andsvari við hv. formann fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson. Það sneri að mikilvægi þess að draga úr skuldsetningu ríkissjóðs. Þar benti hv. þm. Smári McCarthy einmitt á ágætistöflu á bls. 42 í fjármálaáætlun fyrir árið 2022–2026 þar sem dreginn er fram sá ótrúlegi árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum þegar borin eru saman tímabilin 2011–2019. Þar er Ísland vægt til orða tekið í algerum sérflokki meðal — mér sýnist þetta vera svona að meginhlutinn ef ekki öll OECD-lönd sem eru tilgreind á þessari töflu, en þarna er Ísland, á árabilinu frá 2011–2019, að lækka heildarskuldir hins opinbera um tæp 60%. Engin þjóð þarna er nokkurs staðar í námunda við það og stór hluti þeirra eykur heildarskuldir hins opinbera á þessu tímabili. Malta er þarna í 25% sýnist mér, en aðrar þjóðir eru langt á eftir okkur hvað þetta varðar. Í þessu samhengi verður að minnast á, og það er gert hér samviskusamlega í texta áætlunarinnar, að þetta skýrist, með leyfi forseta, eins og stendur hér:

„… að umtalsverðu leyti annars vegar af hagstæðri úrlausn þrotabúa bankanna, svo sem með verulegum stöðugleikaframlögum til ríkisins, og hins af skyndilegum og hraðvaxandi fjölda ferðamanna sem sóttu landið heim.“

Það er þetta atriði sem er nefnt þarna á undan í þessum ágæta texta, sem hefur væntanlega verið unninn uppi í fjármálaráðuneyti, þetta skýrist að umtalsverðu leyti af hagstæðri úrlausn samninga er sneru að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna, hinum svokölluðu stöðugleikaframlögum. Það er aldrei of oft þakkað fyrir það að ríkisstjórnin sem hér var á árunum 2013–2016, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, núverandi formanns Miðflokksins, vann algjört kraftaverk í þeim efnum. Það er auðvitað sjálfsagt að hrósa því sem vel er gert í þeim efnum og skapar grunninn fyrir þá góðu stöðu ríkisfjármála sem var hér þegar Covid-ástandið brast á.

Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga, af því að ég skildi hv. þm. Smára McCarthy á þann máta að þetta hefði verið til komið vegna ofuráherslu, eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað það, á að greiða niður ríkisskuldir. Það er mikilvægt að leggja áherslu á að greiða niður ríkisskuldir en þarna var þessi einskiptisaðgerð, einhver myndi kalla þetta hvalreka, en í öllu falli einskiptisaðgerð sem féll ekki af himnum ofan. Það voru býsna heiftúðugar, leyfi ég mér að segja, umræður um það hér á þingi hvort þetta væri yfir höfuð fær leið og voru þær umræður sennilega aldrei heitari en á vorþinginu 2013, sem sagt fyrir þær kosningar.

Ég vil aftur nota tækifærið hér, úr því að hv. þm. Smári McCarthy opnaði þessa umræðu, til að hrósa ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem sat hér á árunum 2013–2016 fyrir þann ótrúlega árangur sem náðist hvað uppgjör slitabúanna varðar í tengslum við stöðugleikaframlögin og þau áhrif sem sú aðgerð hafði á að auka svigrúmið til hraðari niðurgreiðslu ríkisskulda, því það er auðvitað þannig, eins og segir hér áfram, með leyfi forseta, að „lífskjör og fjárhagslegur styrkur ríkissjóðs til framtíðar mun ráðast af því hvernig til tekst við að endurreisa þróttmikinn og sjálfbæran hagvöxt.“

Það er auðvitað algjört lykilatriði í öllu því sem við okkur horfir núna. Við verðum að styðja við það og hugsa allar aðgerðir út frá því að atvinnulífið komist með sem öflugustum og bestum hætti hratt á lappirnar. Það er auðvitað hægt, eins og hefur verið gert af fræðimönnum sem áður voru í pólitík, að horfa á mjög þröngt og afmarkað svið efnahagslífsins og segja: Það er allt í fínu lagi nema ferðaþjónustan, hún er öll í köku, en það er ekki svo alvarlegt, það eru ekki nema tæp 10% af heildinni. Það er auðvitað ekki þannig raunverulega. Allt hangir þetta saman og ferðaþjónustan hefur áhrif á aðra þætti efnahagslífsins þannig að við getum ekki leyft okkur að nálgast málið með þeim hætti.

Ég legg áherslu á það að við verðum að grípa til allra þeirra aðgerða sem við getum til þess að atvinnulífið komist sem hraðast og best á lappirnar og þar þurfum við að horfa til þess að einfalda regluverk. Við þurfum að lækka skatta og gjöld og við þurfum að sýna því skilning að verðmætin sem standa undir velferðarkerfunum okkar verða til í atvinnulífinu. Það er nú bara þannig og með því er ekki verið að segja að opinber störf séu ekki mikilvæg, síður en svo. En það verður engin staða og engin geta hjá hinu opinbera til að styðja við það góða starf sem er unnið innan hins opinbera geira ef þess er ekki gætt að atvinnulífið geti skapað þau verðmæti sem nauðsynleg eru til að standa undir þeim rekstri. En þetta var nú smá útúrdúr og það hefur nú svo sem margt komið fram hér í umræðunni á fyrri stigum þannig að ég ætla ekki að endurtaka það sem mér þykir vel hafa verið haldið til haga.

En mig langaði að koma inn á nokkur atriði sem snúa að samgöngumálum í þingsályktuninni eins og hún liggur fyrir. Það er eins og oft vill verða að það sem stendur ekki hérna skiptir ekki minna máli en það sem stendur í plagginu. Hér undir lok þessa kjörtímabils tel ég orðið einsýnt að stefnumörkun um framtíðargjaldtöku í vegakerfinu sé ekki væntanleg. Það verkefni hefur verið á borði samgönguráðherra allt kjörtímabilið. Það er ekki ofsögum sagt að reglulega sé því flaggað og þá yfirleitt í þeim tilgangi að útskýra að eitthvað annað hafi ekki áunnist eða verið klárað, en þessi vinna sé í gangi. Ég reikna með að þetta verði síðasta umræða sem við eigum hér um fjárlagatengd mál nema hv. formaður fjárlaganefndar, og varaformaður sem situr hér í hliðarsal, lumi á einhverjum bandormi sem á að afgreiða. Það er einn eftir, sýnist mér, á handahreyfingunni. (Gripið fram í.) En ég vil bara minna á þetta um leið og ég gagnrýni það að ekki hafi verið gerð nein tilraun til að koma áleiðis þeirri vinnu sem svo nauðsynlegt er að eigi sér stað, sem snýr að því hvernig framtíðargjaldtöku verður háttað hvað samgöngukerfið varðar. Því það er auðvitað þannig að á meðan það liggur ekki fyrir liggja mál sem snúa að svokölluðum samvinnuverkefnum, frumvarp þess efnis var samþykkt hér á síðasta þingi, í láginni. Á meðan regluverkið hvað þetta varðar liggur ekki fyrir er tómt mál um að tala að menn komist á sprettinn með hin svokölluðu samstarfsverkefni, PPP-verkefni eða hvað við köllum þau. Ég vil bara halda því til haga hér og gagnrýna og þetta er auðvitað verkefni sem nýr samgönguráðherra, hver sem hann verður í haust, verður að taka hratt til sín og forma.

Ég veit ekki hversu oft í þessu ágæta plaggi er talað um orkuskipti í samgöngum. Gjaldtakan af nýorkubílunum, rafmagnsbílum, tökum þá bara vegna þess mikla fjölda sem er að koma á göturnar þessi misserin, er með þeim hætti að hún þurrkast upp á ekkert mjög löngum tíma ef við horfum á það í samhengi þess tímaramma sem eðlilegt er að gera í samgöngumálum. Þetta er vinna sem verður ekki geymd öllu lengur og bara alls ekki og ég vil gagnrýna það að hún hafi ekki verið unnin eða hugmyndin alla vega lögð fram þannig að hægt væri að vinna með hana á því kjörtímabili sem nú er u.þ.b. að verða búið.

Annað sem mig langar að koma inn á varðandi samgöngumálin eru atriði sem snúa að því sem verður rætt hér í seinni umræðu undir lok þingfundar í dag ef allt fer eðlilega. Það er uppfærð samgönguáætlun þar sem fram komu seint og um síðir atriði sem orsaka það að veruleg breyting verður á uppbyggingu varaflugvallakerfisins á Íslandi, sem felst í meginatriðum í því að hætt er við að byggja svokallaða akstursbraut meðfram Egilsstaðaflugvelli og í staðinn gengið til þess verks sem hefur blasað við árum saman að væri beinlínis stórhættulegt að fresta, sem er að malbika brautina. Ekki gagnrýni ég það, síður en svo, en það er þessi framtíðarsýn og væntingastjórnun sem virðist mönnum á köflum ekki mjög töm á kontór hæstv. samgönguráðherra þessi misserin. Svona lagað getur ekki fallið af himnum ofan. Sú staða að allt í einu séu hvorki til peningar né staða skipulagsmála með þeim hætti að hægt sé að komast áfram með akbraut meðfram Egilsstaðaflugvelli — ja, ef skýringin er sú að samgönguráðuneytið, ráðherra eða fulltrúar hans, skildu ekki varnaðarorð Isavia þá er ekki við Isavia sakast, eftir að hafa skoðað gögnin í ljósi umræðu sem átti sér stað hér í þingsal fyrir tveimur dögum. Við megum ekki láta flugöryggismálin reka á reiðanum en það er auðvitað sú mynd sem teiknast upp þegar við horfum á þau mál sérstaklega er snúa að viðauka við samgönguáætlun sem er hér til seinni umræðu á eftir og í ljósi þess sem kom fram við fyrri umræðuna er losarabragurinn allt of mikill í þeim efnum.

Aðeins varðandi tölurnar í tengslum við samgöngumálin þá er það þannig að á árabilinu 2022–2026 verður 16% lækkun fjárveitinga til samgöngu- og fjarskiptamála, sem sagt lækkun um 8 milljarða, úr 50 milljörðum í 42 milljarða. Það má færa fyrir því rök að inn komi aftur einhver átaksverkefni, samstarfsverkefnin skili „framkvæmdabústi“ inn í þennan tímaramma en það mun ekki gerast nema menn formi þá aðra þætti regluverksins sem svo nauðsynlegt er að styðji við það, eins og það sem ég gagnrýndi áðan að væri ekki komið fram, sem er ný sýn á gjaldtöku af samgöngukerfinu. Ég vil bara halda því til haga að sá fjárfestingarþáttur fjármálaáætlunarinnar er snýr að samgöngum er að skila umtalsverðri lækkun á milli tímabila og það er bara hlutur sem við verðum að nálgast, hvort sem við gerum það með skuldsettri fjármögnun utan þessa ramma eða hver sem leiðin er. En það er einfaldlega ekki í boði að draga úr fjárfestingum í samgöngukerfinu. Það er einfaldlega það mikið af arðsömum verkefnum sem komast ekki til framkvæmda að það er ekki forsvaranlegt.

Mig langar aðeins að koma inn á, bara á almennum nótum, lög um opinber fjármál. Margt er til bóta í þeim efnum en annað hefur kannski ekki tekist alveg eins og ráð var fyrir gert þegar lögin voru sett. Helst vil ég nefna að enn er ekki horft á afleidda þætti með þeim hætti sem nauðsynlegt er, til að mynda bara kostnaðarmat af því að gera eldri borgurum, lífeyrisþegum, auðveldara að vinna. Þá er regluverkið þannig að lagt er mat á hver kostnaðaráhrifin eru af því fyrir hið opinbera en tekjuþátturinn, hvort sem það eru skattar eða annað eða mögulega sparnaður í heilbrigðiskerfinu, kemur ekki til neinnar skoðunar í því samhengi.

Annað sem vakti auðvitað athygli í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag var umræða þar sem formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ræddi við formann Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, um mat af afleiddum kostnaði varðandi fjölgun umsókna hælisleitenda og þá í því samhengi sérstaklega fjölgun tilhæfulausra hælisumsókna og hvernig mat er lagt á slíkan kostnað. Og ef það er raunin að lög um opinber fjármál rammi það þannig inn að beinlínis sé ekki horft heildstætt á áhrif aðgerða þá er það þeirrar gerðar að það þarf að taka þessi lög upp og skoða þau með tilliti til þess, því að í flestum málum sem við eigum við hér á þingi eru tveir leggir, kostnaðarlega eða tekjulega. Ég vil bara halda því til haga að þetta þurfi að taka til skoðunar þannig að við horfum á verkefni og mál eins og þau munu gerast í raunheimum þegar á reynir.

Við horfum á fréttir af ráðstefnu aðila sem standa að rekstri hjúkrunarheimila. Þar er allt í hers höndum, svo vægt sé til orða tekið. Mér hefur sýnst að uppbygging hjúkrunarheimila á landsvísu gangi, svo vægt sé til orða tekið, hægar en ráð var fyrir gert. En það er þó hátíð ein miðað við stöðuna sem er uppi hvað varðar rekstur þeirra. Ég get því miður ekki lesið það út úr fjármálaáætluninni eins og hún liggur fyrir að menn hafi lagst yfir það til að reyna að sjá til lands með hvernig þau mál verða leyst. Í frétt á mbl.is í morgun, þar sem er rætt við Eybjörgu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, þá segir, með leyfi forseta:

„Það veldur okkur gríðarlegum vonbrigðum ef þetta eru viðbrögðin.“

Er þá verið að vísa til þess að ekki er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum vegna vandans í fjármálaáætlun, eins og segir í fréttinni. Framkvæmdastjóri samtakanna gagnrýnir það harðlega. Það má alveg til sanns vegar færa að þetta plagg sé ekki hugsað til langs tíma, bara í ljósi aðstæðna, og ég hef alveg skilning á því. En ég tel vart boðlegt að alveg sé skautað fram hjá þeirri stöðu sem uppi er í tengslum við hjúkrunarheimilin. Ég vil halda því til haga hér, hvort heldur sem horft er til uppbyggingarþarfarinnar í tengslum við umræðu sem við þekkjum um fráflæðisvanda Landspítala o.fl. Þó er sú staða býsna bærileg ef tekið er tillit til rekstrarhlutans. Það er mjög alvarlegt og ég hefði gjarnan viljað sjá að á því hefði verið tekið með einhverjum hætti. En það er eins og það er og málið liggur fyrir eins og það liggur hér fyrir.

Nú í blálokin af því tíminn er að renna frá mér vil ég aftur halda til haga þeirri gagnrýni sem við höfum sett fram hér, Miðflokksmenn, varðandi mat á kostnaði við málefni innflytjenda heildstætt, ekki kostnaðinn við það að taka vel á móti þeim sem við ætlum að taka á móti og koma hér til að mynda í gegnum kvótaflóttamannakerfið, heldur eins og hæstv. dómsmálaráðherra lýsti í andsvari við Þorsteinn Sæmundsson fyrir nokkrum vikum síðan, að kerfið væri krani sem búið væri að gefast upp á að ná utan um kostnaðinn við og frekar ætti að sækja fjárveitingar eftir á. Í máli eins og þessu er það auðvitað ekki boðlegt. Og ef við erum hér með lög um opinber fjármál til að reyna að aga okkur og gera betur í þessum efnum þá verðum við að horfa á málið heildstætt og líta til afleiddra áhrifa af ákvörðunum.