151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það hvers vegna ályktanir umhverfis- og samgöngunefndar virðast lenda neðarlega í bunkanum hjá hæstv. samgönguráðherra þá veit ég ekki svarið en ég ímynda mér að það sé af sama meiði og það að undanfarið hefur hæstv. fjármálaráðherra lýst því þannig að þingið setji ráðherrum ekki fyrir með því að vísa málum til ríkisstjórnar. Ég hef lúmskan grun um að hæstv. samgönguráðherra noti það sem útskýringu þó að hún haldi engu vatni í þessu samhengi vegna þess að það er svo margt sem hefur þurft að ítreka, t.d. vinna við nýja jarðgangaáætlun sem var lögð lína með í samþykktri samgönguáætlun í byrjun árs 2018 og þurfti síðan að ítreka þegar samgönguáætlun var uppfærð. Mig minnir að það hafi verið 248 orð sem voru þar inni. Þetta var eins snubbótt og það gat verið og nokkur orð um ein göng í staðinn fyrir að unnin væri forsvaranleg jarðgangaáætlun eins og sú sem lá fyrir sem grunnplaggið fyrir 20–25 árum síðan, ef ég man rétt.

Varðandi strætóinn þá erum við í Miðflokknum fylgjandi því að öflugar almenningssamgöngur séu valkostur fyrir fólk sem hentar að nýta sér þær. Við höfum miklar efasemdir um að svokölluð borgarlína sé skynsamleg leið en það er alveg sjálfsagt að styðja við almenningssamgöngumátana sem við þekkjum. En okkur þykir illa hafa tekist til. Miklir fjármunir hafa verið settir í Strætó árlega undanfarin tíu ár en á meðan hefur þetta svokallaða framkvæmdastopp verið í gangi. En þetta er bara partur af því að auðvelda fólki af öllum efnahagsstigum, af því að hv. þingmaður orðaði það þannig, að nýta sér samgöngukerfi landsins.

En örstutt — ég er alveg að verða búinn, hæstv. forseti — varðandi sjónarmið (Forseti hringir.) hv. þingmanns í innflytjendamálum. Ég átta mig alveg á því hvað hv. þingmaður er að fara þarna. (Forseti hringir.) Við deilum kannski ekki alveg sömu sýn en punktinn skil ég.