151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður byrjaði ræðu sína á því að lýsa þeirri sýn á samfélagið, sem ég held að sé auðvelt að vera sammála, að fólk eigi ekki að þurfa að steypa sér í skuldir bara fyrir það vera til, að samfélagið eigi að taka utan um grunnþarfir okkar allra þannig að við getum tekið fullan þátt í samfélaginu. Nú þegar sígur á seinni hluta kjörtímabils er ekki úr vegi að líta á þær aðgerðir sem hefur verið gripið til af ríkisstjórninni og velta fyrir sér hvernig henni hefur tekist að ná akkúrat því markmiði.

Mig langar, vegna þess að hv. þingmaður situr í allsherjar- og menntamálanefnd og hefur gert allt þetta kjörtímabil, að spyrja hann út í eina dálítið stóra breytingu sem fór í gegnum þá nefnd, sem er nýtt námslánakerfi, Menntasjóður námsmanna. Við ræddum þegar frumvarpið var til umfjöllunar að ýmsar talnakúnstir væru í gangi. Það sem er núna veitt sem styrkur var í rauninni bara það sem var afskrifað áður þannig að það var aðeins fært til í tíma og standa þurfti vörð um það sem er kallað sjálfbærni lánahluta kerfisins þannig að skuldarar stæðu sjálfir undir því að taka lán, samfélagið bæri engan kostnað af því.

Samhliða því ræddum við að hækka þyrfti grunnframfærsluna og það hefur bara ekki gerst, herra forseti. (Forseti hringir.) Það hefur ekki gerst á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan við samþykktum þetta nýja lánasjóðsfyrirkomulag. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann, alveg óháð Covid-ástandinu, óháð því að námsmenn eigi erfitt með að finna vinnu núna og eigi erfitt með að ná endum saman: (Forseti hringir.) Er þetta sanngirnin sem allsherjar- og menntamálanefnd kallaði eftir?

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)