151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Álag á ólíka hópa í samfélaginu hefur snaraukist í Covid og ég held að einn sá hópur sem álagið hefur aukist hvað mest á sé það fólk sem er í forsvari fyrir stúdentahreyfinguna. Þau hljóta að vera farin að missa töluna á því hversu oft þau hafa komið til þingsins með sömu kröfurnar um aðgerðir til að tryggja framfærslu námsfólks á tímum Covid. Þetta voru mjög einfaldar kröfur; að hækka grunnframfærsluna frá þeim 180.000 sem hún er í dag og tryggja námsfólki atvinnuleysisbætur, sem hljómar undarlega í eyrum fólks sem heldur að nám eigi að vera full vinna en staðreyndin er hins vegar sú að 70% íslenskra háskólanema framfleyta sér með því að vinna með námi. Núna eftir Covid glímir þriðjungur þessa hóps við alvarlegan eða mjög alvarlegan fjárhagsvanda. Hvað fær þessi hópur? Hann fær ekki uppfærslu á grunnframfærslunni heldur tímabundið 6% álag á hana ef viðkomandi er undir frítekjumarki. Svo stendur í fjármálaáætluninni að fyrir næstu fjárlög verði kannski búið að meta og greina og gera það sem ég hélt þegar við samþykktum lög um Menntasjóð námsmanna að ætti að gerast strax. Það gerist kannski fyrir næstu fjárlög og þar með fyrir námsárið sem byrjar í september á næsta ári. Ég spyr þess vegna, virðulegur forseti, eins og forseti stúdentaráðs, með leyfi: Ef kallinu er ekki svarað þegar neyðin er stærst, hvenær þá?