151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[19:07]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla í stuttri ræðu um fjáraukalög fyrir árið 2021 aðallega að fjalla um þá þætti sem lúta að heilbrigðismálum frá nokkrum sjónarhornum. Hugtakið fjáraukalög hefur lifað með þinginu lengi. Ef maður grúskar aðeins má kannski fyrst sjá því bregða fyrir á prenti árið 1859. Þá erum við að sjálfsögðu hluti af danska konungsveldinu. Á þeim tíma vorum við þjökuð af hungursneyð. Þá var mikill skortur, það vantaði korn sem var bráðavandi þess tíma og það þurfti að bregðast við og útvega okkur korn svo að þjóðin lifði af. Það mun hafa tekist og við erum hér enn og erum enn árið 2021 að fjalla um fjáraukalög.

Skerpt var á hlutverki þessa hugtaks, fjáraukalaga, með tilkomu laga um opinber fjármál, líklega í ársbyrjun 2016. Það á sem sagt ekki að leita heimilda í fjáraukalögum nema til að bregðast við algerlega ófyrirséðum útgjaldatilefnum sem klára þarf innan ársins og ríkissjóður kemst ekki hjá að standa við. Ekki á að fara í ný verkefni, ekki láta nýja peninga í meiri eða aukna starfsemi eða rekstrarhalla eða önnur áhugaverð verkefni sem upp kunna að koma og fanga hug þeirra sem stýra og stjórna. Hvernig þessu hefur þó verið framfylgt hefur auðvitað verið með öllu móti og hefur oft verið gagnrýnt á allra síðustu árum úr þessum stól að fjáraukalögum sé ekki alltaf beitt nákvæmlega með þeim hætti sem menn hugsuðu og þar sé ýmsu komið fyrir sem ætti heima í fjárlögum. Það er mikið til í því.

Þótt það frumvarp sem hér er til umfjöllunar mótist mjög af viðbrögðum við heimsfaraldri kórónuveiru þá er með sama hætti líka að finna útgjaldaliði sem ættu hugsanlega og sennilega samkvæmt laganna bókstaf að vera annars staðar, allt saman ágæt mál en geta tæplega talist ófyrirséð, ýmislegt sem lýtur t.d. að geðheilbrigðismálum, þeim mikilvæga málaflokki. Við vitum auðvitað að með Covid þyngdust þau mál. Það er málaflokkur sem hefur verið vanfjármagnaður um árabil og ekkert nema gott eitt um framlög til hans að segja, en hugsanlega ættu ýmsir þættir þeirra mála að vera annars staðar og í betri skorðum en í fjáraukalögum. Ég nefni eflingu ráðgjafarstofu innflytjendamála sem annað dæmi og svo aðgerðir sem stuðla eiga að auknu tölvu- og tæknilæsi aldraðra. Þótt við lifum einstaka tíma eiga þessir þættir sennilega ekki heima í fjáraukalögum.

Þó er jafnframt að finna stöku gimsteina að mínu áliti sem bæði glóa og gleðja í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Þar á meðal er framhaldsskólastigið því að þar er fjárheimild til hækkunar til að efla geðheilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum með þverfaglegri skólaheilsugæslu og sálfræðiþjónustu. Það er gamalt baráttumál okkar í Samfylkingunni sem við höfum lagt fram ítrekað á undanförnum þingum og auðvitað gleðjast hjörtun við það og við þessar aðstæður þó að við vildum að það væri miklu fastbundnara á fjárlögum.

Svo eru önnur veigamikil atriði sem látin eru reka á reiðanum og ekki brugðist við. Það er alvarlegt og ekki viðunandi. Efst í huga koma auðvitað hlutskipti hópa sem standa hvað höllustum fæti í samfélaginu og hafa farið mjög halloka í Covid-faraldrinum. En það er rétt að árétta að fjáraukalögin eru svo sem ekki vettvangur til að kúvenda í efnahagslegu tilliti hjá hinu opinbera.

Heilbrigðisstofnanir hafa lagt sig í líma á undanförnum mánuðum faraldurs við að viðhalda og standa vörð um kjarnaþjónustu og tekist það svo að aðdáun vekur en þær hafa búið og búa enn og varanlega við óvissu í rekstri og fjármögnun og þurfa að horfa frá einum mánuði til annars og vita ekki meir. Lokanir og takmarkanir á starfsemi hafa valdið umróti og sviptingum í starfseminni á flestum sviðum og stofnanirnar hafa tekist á við bráðaviðbrögð sem fylgja faraldrinum. Öðrum aðgerðum og starfsemi hefur kannski í mörgum tilvikum verið vikið til hliðar og biðtími eftir valaðgerðum hefur aukist úr hömlu. Eðlilega hefðu fjáraukalögin átt að ná utan um þessi málefni, að fjölga aðgerðum eins og oft hefur verið nefnt hér í dag varðandi augasteina, liðskipti og ýmsar valaðgerðir á sviði kvensjúkdóma. Það hefur ekki vantað upp á viljann og áhugann hjá starfsfólki og ábyrgðartilfinningin og einurðin er mikil. En rekstrarvandi þessara stofnana er áhyggjuefni. Margar þeirra búa við uppsafnaðan vanda og vanskil hafa sennilega aukist. Þær hafa ekki haft mikið borð fyrir báru og víða er ausið án afláts til að halda skektunni á floti. Ekki er hægt annað en að taka hattinn ofan fyrir því góða starfi.

Tíminn er auðvitað mikilvægur þáttur í fjárhagslegu tilliti þegar þessar stofnanir eru að glíma við það að þrauka frá einum mánuði til annars og spurningin er knýjandi: Hefur ráðherra, og ráðuneytið, brugðist við með fullnægjandi hætti og stutt við heilbrigðisstofnanir í þrengingum? Þetta þarf að gera vel og þarf að gerast hratt. Það þarf að gera heilbrigðisstofnunum kleift að komast á lygnan sjó hið bráðasta.

Vandi heilbrigðisstofnana er af ýmsum toga. Að hluta til er þetta ósveigjanlegt rekstrarumhverfi og greiðsluumhverfi. Það er hamlandi fyrir stofnanir. Þær hafa, eins og ég segi, búið við áralanga vanfjármögnun og Fjársýsla ríkisins hefur ekki haft burði til að veita sveigjanlegri þjónustu. Hver eru þá úrræði þessara stofnana? Það er að leita til bankastofnana eða hreinlega safna upp rekstrarskuldum hjá viðskiptaaðilum sínum og greiða háa vexti. Dæmi eru um að stofnanir borgi milljónir, jafnvel yfir tug milljóna, í vanskilavexti á hverju ári. Því er mikilvægt að horft sé til heilbrigðisstofnana með vökulum augum og brugðist hratt við, bæði til skamms tíma og lengri tíma. Það verður að færa rekstrarumhverfi stofnana og ýmsa rekstrarhætti í heilbrigðiskerfinu, þá sem lúta að heilbrigðisstofnunum, til nútímans. Við þekkjum umræðuna um kostnaðargreiningu á starfsemi, að mæla rekstrarkostnað stofnana á nútímalegan hátt, meta rekstrarkostnaðinn, fela hann ekki, greiða hann ekki bara að hluta. Þetta snertir auðvitað grundvallaratriði, faglega uppbyggingu. Þetta skiptir máli varðandi allt kostnaðarlegt eftirlit og aðhald, stefnumörkun ráðuneytis og ráðherra hverju sinni. Það er vandinn, herra forseti.

Núverandi ríkisstjórn hefur nánast í engu orðið ágengt í breytingum á fjármögnun í heilbrigðiskerfinu. Áfram er stórum fjárupphæðum mjatlað út ómarkvisst á báða bóga án þess að búa til einhvern vegvísi, leiðarvísi um það hvernig við viljum búa út kerfið, hvar áherslur eigi að liggja, hvernig við viljum veita þjónustuna og hver eigi að gera það, hvernig og hvar það sé hagkvæmast. Við þessar aðstæður hefur stjórnendum í opinberri heilbrigðisþjónustu jafnvel verið búið það óverðuga hlutskipti að taka sér stöðu og jafnvel hrópa á torgum í fjölmiðlum um þörf á meira fé í óskilgreinda eða lítt skilgreinda starfsemi. Þeir hafa komið fyrir þingnefndir og þingmenn rétt eins og beiningamenn og svo hefur það verið Alþingis að vega og meta þær beiðnir og verða við þeim eftir hentisemi.

Herra forseti. Þetta er flókinn og krefjandi málaflokkur og hægara um að tala en í að komast þegar um úrlausnir og skipulag er að ræða, en það verður ekki umflúið. Við verðum að gera betur. Við verðum að leitast við að hámarka það hvernig við nýtum sameiginlega sjóði okkar svo að sátt verði um það. Hvað með vinnuna við kostnaðargreiningu í verkefnum Landspítala, hið svokallaða DRG-greiðslukerfi? Ekki er minnst á það einu orði í fjáraukalögum eða í fjármálaáætlun. Og kostnaðargreining er auðvitað ekki einskorðuð við Landspítala. Hún er lykilatriði þegar ákvarða þarf fjárþörf. Það á jafnt við um Landspítala, heilsugæsluna og heilbrigðisstofnanir um allt land. Þannig eru sjálfstætt starfandi sérfræðingar, heilbrigðisstofur og einkareknar heilsugæslustöðvar fjármagnaðar. Staða þeirra er, herra forseti, með allt öðrum hætti. Við höfum fylgst með umfjöllun Kveiks um fjárhagsleg umsvif sjálfstætt starfandi sérfræðinga að undanförnu sem senda sjúkratryggingum reikning fyrir öllu, stóru og smáu, unnum verkum, húsnæði og tækjaálagi og öðru þar fram eftir götunum. En þar hefur þróast mjög sérkennilegt verklag um kostnaðarmyndun, hver hún í rauninni sé og hver meti mikilvæga þætti í því sambandi. En þarna er þó verðlagt einingarverð eða stykkjaverð í gildi og greitt eftir því. Það á við um einkarekna starfsemi en ekki hina opinberu. Hvert á hlutskipti hennar að vera? Eða er það mat ríkisstjórnarinnar að þetta sé svo sem í lagi og heilbrigðiskerfið sé vel fjármagnað með þessum hætti? Það er náttúrlega af og frá.

Í ljósi áherslumála og forgangsröðunar í kostnaðargreiningu verður maður eiginlega dálítið hugsi, jafnvel agndofa. Í frumvarpi til fjáraukalaga er af rausnarskap lögð til 1 milljarðs aukafjárheimild til hjúkrunar- og dvalarheimila. Það er sorgleg staða og sýnir að rekstrarleg umgjörð málaflokksins er sprungin. Hugmyndafræðin er gjaldþrota líka. Þetta er aðeins til eins árs og á spýtunni hanga skilyrði sem hafa satt best að segja svolítið yfirbragð þvingunar. Hækkanirnar eiga að ganga til baka í byrjun næsta árs og verða greiddar út ef rekstraraðilar þrauka aðeins lengur. Vandinn er raunar skilinn eftir óleystur. Það er algerlega ljóst að í varanlegan rekstrargrunn þessarar þjónustu vantar um 4,5–5 milljarða, en stjórnvöld gefa því ekki gaum.

Herra forseti. Kostnaðargreining í heilbrigðisþjónustu er ekki einfalt ferli og því síður er það þannig að einhugur sé um verklag og upplegg í þeim verkefnum, hversu hátt hlutfall eigi að kostnaðargreina í starfsemi stofnana t.d. Það er hins vegar fremur auðvelt í rekstri öldrunarstofnana þar sem samsetning starfseminnar er ekki eins flókin og á sjúkrahúsum, svo dæmi sé tekið. Stöðugleiki er allnokkur og tiltölulega auðvelt að smíða reiknilíkan um flesta þætti og fyrirsjáanleika. Hvers vegna er starfsemi öldrunarstofnana ekki kostnaðargreind? Vonandi verður byrjað á því í þeirri vinnu.

Herra forseti. Ég hef þetta ekki öllu lengra. Ég tel augljóst að vanfjármögnun sé útbreidd í heilbrigðiskerfinu og við eigum að hafa sóma til að lagfæra það með opin augun.