151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hvað einkennir góðan stjórnmálamann? Ef við værum spurð um álit á stjórnmálamönnum dagsins í dag efast ég um að þær lýsingar sem við myndum fá væri það sem við vildum að einkenndi góðan stjórnmálamann. Við heyrum athugasemdir eins og: Svarar ekki spurningum, vinnur ekki að almannahag, endalausir útúrsnúningar og ýmislegt á þeim nótum. Ég lendi t.d. reglulega í því að svör frá ráðherrum, bæði skrifleg og munnleg, svara aldrei því sem ég spyr um og ég þarf ítrekað að minna mig á að hlusta vel eftir því hvort ég greini eitthvert svar úr þeirri orðasúpu sem ég fæ yfirleitt í hausinn þannig að ég geti spurt aftur og aftur þangað til það er orðið vandræðalegt að svara ekki spurningunni. Stundum koma hins vegar gullkorn í svörum ráðherra. Í apríl árið 2018 kom eitt heiðarlegt svar frá nokkrum ráðherrum þegar ég spurði um endurgreiðslur vegna hlunninda ráðherra og svarið var mjög skýrt: Ekki hafði myndast hefð fyrir því að fara eftir reglum um endurgreiðslur vegna hlunninda. Mér þótti þetta stórkostlega merkilegt og er búinn að reyna að komast að því hvernig í ósköpunum ráðherrar komast upp með að endurgreiða ekki dagpeningagreiðslur vegna hlunninda síðan þá. Ég spurði ríkisendurskoðanda um þetta og hann sagðist ætla að senda bréf til Skattsins, en ekkert gerðist. Ég er búinn að senda spurningar aftur og aftur í fjármálaráðuneytið um þetta og svörin þaðan eru mjög skýr: Það hefur ekki myndast hefð fyrir því að endurgreiða vegna hlunninda. Samt er það mjög skýrt í reglum að það eigi að gera það, líka meira að segja í nýendurskoðuðum reglum ráðuneytisins.

Hvað þýðir þetta? Jú, ráðherrar fá aukagreiðslur sem þarf að gera grein fyrir gagnvart skatti og greiða þarf hefðbundinn tekjuskatt af þessum hlunnindum ef þau eru ekki endurgreidd. Ég efast hins vegar að nokkur ráðherra hafi gert það þann undanfarna rúma áratug sem þessar reglur hafa verið í gildi. Því er ég tilbúinn til að fullyrða að allir ráðherrar síðan þá sem fengið hafa dagpeningagreiðslur hafi vangreitt skatta. En hvað á að gera í því? Við því fæ ég engin svör.