151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

störf þingsins.

[13:21]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Markmið með lögum um opinber fjármál var m.a., þegar við settum þau lög og samþykktum hér, að treysta betur aðkomu Alþingis að markmiðssetningu opinberra fjármála sem leggur grunn að fjárlögum hvers árs. Segja má að það markmið hafi hlotið gildi hér síðasta árið í umfjöllun um öll Covid-mál sem afgreidd hafa verið með aðkomu þingsins í fjáraukalögum, auk þess sem stefnumörkunin sem liggur að baki hefur verið uppfærð í þeim viðbrögðum sem við höfum samþykkt hér við faraldrinum og þeim búsifjum sem hann hefur valdið.

Eitt af því sem við ræðum hins vegar sjaldnar hér í þingsal er framkvæmd fjárlaga. Það er mjög mikilvægur þáttur í að efla og bæta reikningsskil og aga í ríkisfjármálunum og markmiðið um leið með setningu þessara laga. Hver ráðherra ber, í samræmi við lögin, ábyrgð á virku eftirliti og ráðstöfun fjárheimilda, að þær séu innan þess ramma sem Alþingi ákveður og skal ráðherra upplýsa bæði ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis um fjárhagslega framvindu. Það skal gerast eigi sjaldnar en ársfjórðungslega.

Fjárlaganefnd hefur nú verið upplýst um helstu niðurstöður fyrsta ársfjórðungs og má segja að í heildina feli útkoman í sér jákvæðar vísbendingar. Rekstrarafkoma er vissulega neikvæð eins og áætlað var, en tekjur eru heldur meiri en gjöld og í heildina eru gjöld innan fjárheimilda. Afkoman felur í sér jákvætt frávik sem nemur um 7 milljörðum. Það ber þó að ítreka að hér er einungis um þriggja mánaða uppgjör að ræða og var frávikið í uppfærðri spá í tengslum við fjármálaáætlun sem við samþykktum nýverið heldur minna. Frekari mynd fæst á þróun og framvindu mála í sex mánaða uppgjöri. Fjárlaganefnd skoðar alveg sérstaklega frávik einstakra málaflokka og hefur þegar kallað eftir frekari upplýsingum um hvað veldur og hvernig ráðherra ætlar að bregðast við.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að fjárlaganefnd sinni þessum þætti og gaumgæfi og að þessi þráður verði í lagi fyrir þá fjárlaganefnd sem tekur við að hausti.