151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[14:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrst við búum svo vel akkúrat núna að hafa alla ráðherra í salnum er rétt að nefna atriði sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fellur frá að verði breytt með þessu frumvarpi, sem er það að lengja frest til að skila svörum við skriflegum fyrirspurnum. Þetta er ásteytingarsteinn á milli þings og ráðherra sem verður að ráða fram úr. Það gengur ekki að ráðuneyti séu oft mjög lengi að skila inn svörum með fyrirspurnum og oft í engu samræmi við umfang svaranna. Það kom t.d. í ljós í umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar við skoðuðum svör utanríkisráðuneytisins sem nestar okkur best allra ráðuneyta með því að taka fram hversu margar vinnustundir fara í að svara hverri fyrirspurn. Sú fyrirspurn sem tók langlengstan tíma að svara á síðasta þingi, tók heilt ár að svara, kallaði ekki á nema 12 vinnustundir uppi í ráðuneyti. Þannig að þarna þarf að ná einhverju samtali á milli Alþingis og ráðuneytanna varðandi það hvernig við getum útbúið þessa fresti þannig að fyrirspurnir fari að skila sér á réttum tíma hingað í hús.