151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

spá OECD um endurreisn efnahags Íslands.

[13:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Aðeins að opinberu fjárfestingunni. Ég hlýt að benda á að fjárfesting ríkisins hefur verið að aukast jafnt og þétt. Ég held að einnig verði að horfa til þess að eftir fyrsta áfallið héldu sveitarfélögin að sér höndum. Hins vegar virðast þau koma töluvert betur út úr þessu efnahagsáfalli en talið var fyrir fram. Þegar við skoðum tekjur þeirra og niðurstöðu í lok árs koma sveitarfélögin mun betur út úr áfallinu en þau töldu fyrir fram. Þar liggur auðvitað hluti af hinni opinberu fjárfestingu. Þar sjáum við hins vegar fjárfestingu ríkisins aukast og var kominn tími til. Það eru mjög mikilvæg fjárfestingarverkefni sem nú er verið að ráðast í sem skipta máli, ekki bara efnahagslega heldur líka samfélagslega. Hvað varðar peningastefnuna sjáum við verðbólguna fara lítillega niður og ég hef fulla trú á því að Seðlabankinn, sem hefur haldið mjög vel á málum í gegnum þessa kreppu, sé með mjög styrka stjórn á því. Vissulega er vaxtahækkun núna, sem breytir því samt ekki að vextir eru sögulega lágir. Ég held að það skipti máli að við viðurkennum það hér að það hefur gengið gríðarlega vel að halda utan um peningastefnuna í gegnum þennan faraldur.