151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir andsvarið. Hv. þingmaður fullyrðir að þetta kerfi verði ekki tilbúið við setningu laganna 1. janúar. Ég held að það hafi hvergi komið fram að það verði ekki tilbúið. Komið hefur fram að þegar hefur verið hafist handa við útboð á þessu kerfi og það hefur hvergi komið fram að það geti ekki verið tilbúið. Síðan er talað um að fresta þurfi þessu í fjóra mánuði. Mér finnst engin ástæða til að fara að fresta þessu um nokkra mánuði til þess eins að tryggja að kerfin verði tilbúin. Lögin eru skýr, persónuverndarlögin eru skýr, og í gegnum þessa vinnu var það t.d. alltaf haft að leiðarljósi að viðkvæmar persónulegar upplýsingar færu ekki á flakk nema þá að höfðu samráði við börn eða fjölskyldur þeirra. Kerfi sem þegar er unnið við vítt og breitt um landið uppfylla nú þegar persónuverndarlögin og ég get ekki ímyndað mér að eitthvað verði slegið af þeim kröfum. Við tökum undir að þetta verði örugglega tryggt á öllum stigum. En að fresta málinu — þá spyr ég líka á móti: Ætlum við að taka ábyrgð á þeim börnum sem falla á milli skips og bryggju á þeim tíma?