151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð hugsi eftir þessa yfirferð hjá hv. þingmanni og framsögumanni minni hluta í þessu máli. Hún gerir í fyrsta lagi lítið úr framsögumanni sem hún segir að hafi ekki kynnt sér málið. Ég vil spyrja út í það. Telur hún að framsögumaður málsins hafi ekki kynnt sér málið af því að ég var ekki í þessari þingmannanefnd, eins og hún kom að hér? Og það hafði verið mikill undirbúningur. Í öðru lagi, er hún að gera lítið úr þeim undirbúningi sem fór fram og líkja því við mál um skimanir og leghálssýni kvenna? Hver var aðkoma okkar að þeim undirbúningi?

Talandi um að hrifsa málið út úr nefnd í ágreiningi og vera ekki boðið upp á samtal þá á ég tölvupóstssamskipti um það við formann, við alla nefndina, þar sem ég bauð upp á umræðu um málið á fimmtudeginum og því var hafnað. Ég þurfti að hóta dagskrárbreytingu og ég þurfti að leggja fram dagskrárbreytingu til að málið kæmist á dagskrá á fimmtudeginum. Það hefur aldrei staðið á meiri hluta eða framsögumanni málsins að fjalla um málið, aldrei. Það veit formaður. Mig langar til að biðja formann velferðarnefndar að nefna tilvik þar sem ég hef neitað umræðu um málið. Gestakomum lauk 2. mars. Við vitum alveg hvernig álagið hefur verið á nefndasviðinu.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna þingmenn á að vísa til hvers annars með fullu nafni og fara ekki í beint samtal.)