151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[15:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir prýðisræðu. Það er ákveðið atriði sem ég veitti athygli og er að nokkru nefnt í minnihlutaáliti hv. velferðarnefndar sem snýr að fjármögnun ákveðinna þátta. Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í er: Með hvaða hætti var umfjöllun um fjármögnun þessa verkefnis, ef við lítum á þetta sem eina heild, háttað í nefndinni? Það segir hér, með leyfi forseta, í þeim lið er fjallar um mat á áhrifum í greinargerð frumvarpsins:

„Niðurstaða matsins er því á þá leið að viðbótarútgjöld ríkissjóðs vegna heildarbreytinganna geti numið á bilinu 1.360 til 1.802 millj. kr. árlega fyrstu árin eftir gildistöku laganna auk innleiðingarkostnaðar.“

Og hér er miðað við að árið 2025 ljúki formlegu innleiðingartímabili.

Síðan segir hér á næstu síðu, á bls. 20 í sama lið, með leyfi forseta:

„Kostnaður vegna innleiðingar á árinu 2021 er fjármagnaður í fjárlagafrumvarpi ársins 2021.“

Og síðan kemur áhersluatriðið, með leyfi forseta:

„Að öðru leyti hefur ekki verið gert ráð fyrir útgjöldum sem leiða af samþykkt frumvarpsins í fjármálaáætlun.“

Við erum nýbúin að samþykkja fjármálaáætlun. Ef það var ekki fyrir tveimur dögum þá var það á síðasta þingdegi fyrir helgi, ef ég man rétt.

Það kom mér mjög á óvart, af því að í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er tólf sinnum komið inn á kostnað vegna málsins, að ekki skuli einu orði vikið að honum í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar. Á hv. þingmaður einhverjar skýringar á þessu fyrir mig og okkur hin sem ekki sitjum í nefndinni og með hvaða hætti voru þessir þættir ræddir? Því að án fjármögnunar verður auðvitað ekkert úr þeim markmiðum sem hér eru sett fram.