151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[16:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir svarið. Jú, við getum alveg verið sammála um að þetta er mikið úrlausnarefni. Eins og ég sagði hér áður þá bárust einhverjar 53 umsagnir um þessi mál öll. Það eru gífurlega margar blaðsíður og mikið efni að fara yfir til að fylgjast með. En það er annað sem veldur mér áhyggjum. Mál um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra átti í síðasta lagi að koma til umfjöllunar í desember. Inn í kerfið kemur fatlað fólk og þar eru miklar áhyggjur, þeir eru þegar orðnir tortryggnir sem þurfa að vera í kerfi sem er einhvern veginn að verða út undan. Ég nefni hér áhyggjur forstöðumanns Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra af þeirra málefnum og ég get líka nefnt Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið. Allir þessir aðilar benda á þennan mikilvæga póst sem fötluð börn eru í núna.

Ég spyr mig: Til þess að allir þessi einstaklingar fái þann rétt sem þetta kerfi á að gefa þeim verðum við þá ekki að ganga frá því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk þannig að réttur þeirra sé tryggður til jafns við aðra um að þeir eigi skýlausan rétt á öllu því sem þá varðar í þessum málum og ekki leiki nokkur vafi á því? Maður hefur alltaf áhyggjur af að þessi hópur detti milli skips og bryggju og fái ekki þá þjónustu sem hann á rétt á.