151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:19]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel að sáttin um málið og efnið sé til staðar. Eina sem ég tók eftir að væri verið að rökræða í hv. velferðarnefnd var varðandi útfærslu á persónuverndarmálunum. Ég tel þetta mál miklu stærra heldur en útfærsla af því þar sem við höfum almenna persónuverndarlöggjöf í gildi í landinu þannig að ég get ekki séð að þær stofnanir og aðrir sem eru að vinna við þetta geti farið fram hjá þeirri almennu löggjöf. Ég sé ekki alveg hvar í stóra samhenginu það eru einhverjar deilur um málið. Þetta er um einhver útfærsluatriði. Ég tel miklu meiri hagsmuni vera fólgna í því að við klárum þetta mál, að við komumst af stað í þessa vegferð meðan allir eru sammála í því sem við erum að gera, einmitt til þess að draga úr þessum biðlistum sem hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af eins og ég hef sjálfur. Með því að setja þetta af stað þá erum við að vinna í því að veita þjónustuna á fyrri stigum svo að færri þurfi þjónustu BUGL til að mynda. Fólk geti farið á sjálfstyrkingarnámskeið, hitt þroskaþjálfa, farið í hópmeðferð á netinu og margt fleira. Grípa inn í vanda barns áður en vandi barnsins leiðir til þess að það þurfi þjónustu á BUGL. Um það snýst þetta mál, snemmtæka íhlutun. Við erum með allt kerfið með okkur í að stefna í þá átt. Meðan sá meðbyr er þá verðum við að klára þetta mál, nýta meðbyrinn til að breyta kerfinu.