151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:28]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í andsvari við hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson áðan þá fór margt af stað bara með því að vinnan væri í gangi. Þessi hugsun um snemmtæka íhlutun og annað slíkt er farin af stað hjá sveitarfélögunum eins og hv. þingmaður kom inn á. Þetta mál er svo víðfeðmt og stórt, svo fjölbreytt. Sumt, eins og mælaborðið sem Kópavogur og fleiri fóru fyrst í, er hluti af því að mæla hvernig þetta er og hafa betri yfirsýn. En það sem er kannski grundvöllurinn að því og mikilvægast að fari af stað, sem er ekki hægt að gera nema þetta mál fari af stað, er söfnun, vinnsla og miðlun upplýsinga á milli kerfa. Það er það sem er kannski grundvöllurinn. Þessi gagnagrunnur og það allt saman kostar mikinn undirbúning. En það er það sem er öflugasta tækið og allir voru sammála í vinnu nefndarinnar um að það væri forsenda þess að hægt væri að ná þeim árangri sem snemmtæk íhlutun er, að flýta þjónustunni frá þriðja stigi niður á fyrsta stig, auka þjónustuna þar. Því tel ég mjög mikilvægt að þetta mál fari af stað núna. Það eru yfir 70 sveitarfélög í landinu þannig að það þarf að vera svolítið skýrt hver ber ábyrgðina og að þau gangi öll í takt en að börn þurfi ekki að búa við það að sum sveitarfélög leggi af stað en önnur ekki; við þurfum að fá þau öll með okkur í þessa vegferð.