151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér að tala um æsku okkar og börnin okkar. Já, mér finnst hálft ár langur tími, mér finnst mikill skaði ef þau þurfa að bíða lengur eftir að þessi kerfi komi. Því fyrr sem þessi tölvukerfi og þetta tekur gildi þeim mun fyrr náum við að bjarga börnum út úr þjónustuleysi. Það er það sem við erum að takast á við hér, það eru börn sem búa ekki við eins góðar aðstæður og þau mögulega gætu. Við þurfum að grípa þau börn.

Ég vil benda á að allir þeir sem eiga að miðla upplýsingum sínum inn í þann gagnagrunn sem við erum að tala um hér, inn í þessa miðlægu upplýsingasöfnun, hafa nú þegar tölvukerfi undir ströngustu persónuverndarlöggjöf sem er við lýði, lögreglan, heilbrigðiskerfið, skólarnir og félagsmálin. Öll þessi kerfi eru undir strangri persónuverndarlöggjöf í dag, eru með reynda og skilvirka ferla hvað varðar persónuvernd og við höfum í gegnum allan ferilinn, í meira en tvö ár, farið yfir þessa þætti. Við erum ekki að kasta til hendinni eða fara fram af offorsi varðandi persónuvernd. Það er persónuverndarlöggjöf í gildi í landinu. Við erum búin að fjalla um það gagnvart þessu. Hér er ströng persónuverndarlöggjöf. Já, ég tel að við getum ekki boðið íslenskri æsku upp á það að bíða af því að mögulega sé hægt að gera þetta eitthvað öðruvísi. Það er augljóst að það er búið að skoða málið mikið. Við erum löggjafinn, við erum ekki að kasta til hendinni gagnvart börnunum.