151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er aðeins að velta fyrir mér hvort það sé einhver misskilningur á ferðinni. Nú er þetta ekki ný stofnun, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur verið starfrækt frá nítján hundruð sjötíu og eitthvað. Erum við eitthvað að misskilja hvort annað? (BergÓ: Það var Gæða- og eftirlitsstofnun hér á undan.) En, já, ég veit ekki hvort ég á að fara inn í hitt frumvarpið. Ég var einhvern veginn með það í huga að þetta væri einhver misskilningur, en allt í lagi.

Með þessari nýju eftirlitsstofnun er, eins og þessi frumvörp bera með sér, í framhaldi af samþættingarvinnunni verið að greina þarna á milli og, eins og sagt er, það er verið að athuga hvort þessi stofnun sé óþörf. Ég held ekki, ég held að hún hafi ákveðin hlutverk, það var talið gott að greina hana frá Barna- og fjölskyldustofu. Ég vona því að ég geti nálgast þetta því að ég kem svona pínulítið aftan að þessu. Ég hélt að hv. þingmaður væri að tala um að Greiningar- og ráðgjafarstöð væri ný. En það er verið að samþætta þarna hlutverk þessara stofnana út af þessum samþættingarfrumvörpum. Þess vegna er verið að skilja þarna á milli og búa til þessa stofnun sem fellur undir gæða- og eftirlitsmál hvað þessi samþættingarfrumvörp og önnur kerfi snertir.