151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

um fundarstjórn.

[13:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt þegar hagsmunum Íslands eru gerð góð skil og unnið vel að þeim og auðvitað gleðiefni ef við erum að ná góðum fríverslunarsamningi við eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar. Það hlýtur þó að flokkast undir meiri háttar utanríkismál og á þess vegna samkvæmt 24. gr. þingskapalaga að bera undir utanríkismálanefnd. Þess vegna er hálf sérkennilegt að lesa um slíka samninga og undirskrift þeirra og jafnvel frekar nákvæmt orðalag í fréttum áður en utanríkismálanefnd hefur fengið yfirferð yfir málið. Nú veit ég auðvitað að einstaklingar eru mistaugatrekktir þegar þeir standa frammi fyrir flóknum áskorunum og veit að hæstv. utanríkisráðherra er að fara í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á morgun en það er náttúrlega ömurlegt að draga prófkjörsbaráttu inn í þingsal í staðinn fyrir að reyna að efla virðingu Alþingis eins og átti að gera í stjórnarsáttmálanum.