151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

um fundarstjórn.

[13:08]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil, af því tilefni að hér hefur verið komið upp og kvartað yfir samráðsleysi við hv. utanríkismálanefnd, vegna ánægjulegra frétta af nýgerðum fríverslunarsamningi milli Íslands og Bretlands, taka það fram, vegna þess að mér fannst ummæli hér í upphafi þingfundar vera á misskilningi byggð, að boðað var til fundar og hv. utanríkismálanefnd var upplýst um gerð þessa fríverslunarsamnings áður en fréttir af honum birtust í fréttamiðlum eftir því sem ég best fæ séð af umfjöllun fjölmiðla. Í framhaldinu hef ég boðað nefndina til fundar og boðið upp á marga fundartíma í dag, óskaði jafnvel eftir þingfundahléi til að fá kynningu á þessum samningi. En mér hafa borist þau svör frá stjórnarandstöðunni að hún hafi ekki áhuga á að fá þessa kynningu í dag þannig að kynningin bíður betri tíma í næstu viku.