151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

um fundarstjórn.

[13:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma hingað upp og lýsa yfir vilja sínum til samráðs við hv. utanríkismálanefnd. En því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem við þingmenn í hv. utanríkismálanefnd kvörtum undan samráðsleysi. En það er gott að heyra að það er vilji hæstv. ráðherra að gera það.

Varðandi orð formanns utanríkismálanefndar, um það að upplýst hafi verið um gerð fríverslunarsamnings, þá er kannski rétt að árétta að það er ekki sama og að kynna fyrir og vera í samráði við hv. utanríkismálanefnd um innihald fríverslunarsamnings við Bretland sem er eitt okkar helsta, og ég árétta það, samningsríki og bandalagsríki þegar kemur að viðskiptum og öðrum tengslum. Ég vil árétta það við hv. þm. Sigríði Á. Andersen, það er ekki það sama að boða til fundar og upplýsa um gerð fríverslunarsamnings (Forseti hringir.) sem hæstv. utanríkisráðherra var búinn að fara með í fjölmiðla og kynna innihaldið en ekki kynna fyrir hv. utanríkismálanefnd. Það er ekki það sama, herra forseti.