151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[13:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni afar mikilvægt mál til farsældar barna. Það hefur verið mikið samráð í allri þessari vinnu allt kjörtímabilið, í þingmannanefndinni, hjá ráðuneytinu, við fjölmarga þjónustuaðila hringinn í kringum landið, sveitarfélög, börn, ungmenni og ótrúlegan fjölda annarra. Þess vegna er pínulítið sorglegt hvernig málið er á endanum hrifsað út úr hv. velferðarnefnd á lokametrunum án þess að taka tillit til mjög mikilvægra athugasemda Persónuverndar og Barnaverndarstofu sem eru þær stofnanir sem hvað mest þurfa að vinna í þessum málaflokki. Sem betur fer er búið að kalla málið inn milli 2. og 3. umr. og ég vona að það taki breytingum í nefndinni fyrir 3. umr. (Forseti hringir.) Annars eru líka nauðsynlegar breytingartillögur með nefndaráliti minni hluta sem er gerð ítarleg grein fyrir og ég hvet þingmenn til að greiða atkvæði um þetta.