151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[13:55]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta mál er ágætismál, leyfi ég mér að segja. Ég skrifaði þó undir nefndarálit meiri hluta með fyrirvara sem snýr helst að fjármögnunarþætti frumvarpsins. Við sjáum það í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem bendir á og leggur þunga áherslu á að tryggja þurfi stofnuninni fjármagn og að það geti haft neikvæð áhrif á þá sem nota þjónustuna. Að auki virðist enn og aftur eiga að skilja eftir 18 ára fötluð börn sem við hefðum svo hæglega getað komið til móts við, við hefðum alla vega sett fram einhvers konar áætlun um það hvernig ætti að koma til móts við þau.

Að því sögðu vil ég þó segja að við styðjum þetta frumvarp vegna þess að það er spor í rétta átt en það hefði mátt gera aðeins betur.