151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Góðir áhorfendur. Núna þegar líður að kosningum er gott að rifja upp þá erfiðu lexíu sem mörg lærðu eftir síðustu kosningar. Þá sögðum við oft, sem vorum frambjóðendur Vinstri grænna á þeim tíma, að það skipti máli hver stjórnar. En miklu sjaldnar var talað um hvað það skiptir miklu máli hverjum væri stjórnað með. Fyrir næstum fjórum árum stóð ég fyrir framan þáverandi félaga mína í flokksráði VG og lýsti því hvers vegna ég gæti ekki stutt þessa ríkisstjórn. Það var hvorki einfalt né auðvelt. Í salnum fyrir framan mig sátu vinir mínir, fólk sem varði með mér löngum og oft lýjandi dögum í kosningabaráttu. Við höfðum gengið saman í hús, bakað vöflur, dreift bæklingum í Kringlunni, en nú stóð ég fyrir framan þessa félaga mína og sagði að mér litist ekki á hvert flokksforystan vildi fara. Sumum þótti stjórnarmyndunin djörf ákvörðun og jafnvel spennandi. Því var ég ósammála. Það væri einfaldlega of langt á milli flokkanna til að ná þeim raunverulegu breytingum sem við kölluðum eftir, enda kom það á daginn. Meira að segja mál sem áttu að vera vel varin í stjórnarsáttmálanum hafa átt erfitt uppdráttar á kjörtímabilinu eins og sést t.d. einna skýrast á hálendisþjóðgarðinum þar sem andstaðan hefur verið langmest innan stjórnarliðsins. Sá ótti sem ég lýsti fyrir félögum mínum var líka að flokkurinn yrði of samdauna samstarfsflokkunum. Á milli línanna í stjórnarsáttmálanum mátti lesa að forystan hefði fjarlægst rætur sína sem málsvarar vinnandi fólks. Það var nákvæmlega það sem gerðist.

Ríkisstjórnin hófst handa við að mylja niður eftirlitsstofnanir, veita skattaívilnanir til fjármagnseigenda og í dag var byrjað að einkavæða banka í óþökk þjóðarinnar. Þessi hörðu ítök atvinnurekendaarms Sjálfstæðisflokksins hafa verið alltumlykjandi í efnahagslegum viðbrögðum við Covid. Þetta er nýi takturinn sem flokkurinn fann með nýjum samherjum, en við sem viljum róttækar og réttlátar breytingar á samfélaginu þurftum að leita á annan samastað.

Auðvitað þarf málamiðlanir í stjórnmálum. Auðvitað þarf samtal og sameiginlegar lausnir í stjórnmálum en málamiðlanir mega aldrei vera á kostnað þeirra grunngilda sem stjórnmálafólk stendur fyrir. Þegar málamiðlanirnar fara að vera markmið í sjálfu sér, því fólki þykir svo spennandi að brúa á milli sem ólíkastra póla, þá er það ekki til að bæta stjórnmálamenninguna heldur miklu frekar til þess fallið að grugga vatnið. Í gruggugu vatninu finna stjórnarliðar sig sífellt í þeirri stöðu að segjast ætla að gera betur en gera það ekki í alvöru. Stæra sig t.d. af því að hafa aldrei boðið jafn mörgum kvótaflóttamönnum til landsins en á síðasta ári, 100 talsins, þegar raunverulegur fjöldi sem kom á árinu þegar upp var staðið var 0. Stæra sig af stefnu sinni í loftslagsmálum en þegar hún er rýnd í kjölinn sést að hún er hálfgerð ekki-stefna, enda afrakstur endalausra málamiðlana flokka sem eru í grundvallaratriðum ósammála. Helmingur framlags til loftslagsmála fer í að niðurgreiða bíla til tekjuhærri hluta samfélagsins þannig að stefnan tryggir engan veginn réttlátu umskiptin sem við þurfum. Frekar en að auka stöðugt metnað í loftslagsmálum eins og vísindin kalla á þá sitjum við föst á sama stað og ríkisstjórnin ákvað 2017. Og í stað þess að blása til sóknar, setja sér sín eigin metnaðarfullu loftslagsmarkmið útvista þau frumkvæðinu til Evrópusambandsins og biðu.

„Ekki kjósa Framsókn eða Sjálfstæðisflokkinn, því ef þú gerir það þá fer allt til helvítis“, söng Ragnar Kjartansson fyrir einar kosningarnar. Það sem við höfum lært af þessu kjörtímabili er að þetta var bara ekki tæmandi upptalning hjá Ragnari. Fram undan eru gríðarmikilvægar kosningar þar sem við þurfum að kjósa flokka sem gera það sama eftir kosningar og þeir segjast ætla að gera fyrir kosningar. Hefðbundnar pólitískar málamiðlanir ná ekki utan um stærstu áskoranir samtímans. Það hefur þetta kjörtímabil og þessi skringilega kyrrstöðuríkisstjórn kennt okkur. Og hefðbundnar málamiðlanir eru algerlega úti á túni í loftslagsmálum. Þær myndu krefjast þess að ná pólitísku samkomulagi við náttúrulögmálin og náttúran hlustar bara ekkert á slíkar málamiðlanir. Við þurfum ný vinnubrögð. Við þurfum nýja nálgun í stjórnmálum.

Þess vegna gekk ég til liðs við Pírata fyrr á árinu, því að til þess að næsta ríkisstjórn knýi fram raunverulegar og nauðsynlegar breytingar á samfélaginu þarf Pírata þar innan borðs, ekki vegna þess að okkur þyrsti í völd valdanna vegna heldur vegna þess að frá fyrsta degi hafa Píratar staðið fyrir annars konar stjórnmál, stjórnmál sem byggja á heiðarleika og róttækni, stjórnmál sem standa fyrir eitthvað og vita þess vegna að það er ekki hægt að fara í stjórn með hverjum sem er.