151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

frumvarp um hálendisþjóðgarð.

[13:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Miðflokknum virðist mjög umhugað um að kynna til sögunnar ýmis ný þingmál og ég varð vör við það að formaður umhverfis- og samgöngunefndar kynnti til sögunnar þetta nýja þingmál í fréttum sem þó hefur ekki komið fram. Ég ætla bara að halda mig við efnisatriði þessa máls. Ég lít ekki á það sem erfitt mál og ég lít ekki á það heldur sem neitt sérstaklega umdeilt mál þó að fram komi ýmis álitamál sem þarf að vinna úr. Ég lít hins vegar á það sem framfaramál. Við hv. þingmaður höfum átt orðaskipti hér áður um þá framsýni sem réð ríkjum þegar Þingvallaþjóðgarður var stofnaður á sínum tíma. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að við hefðum ekki viljað að nein önnur ákvörðun hefði verið tekin þá. En það var umdeilt og tók mörg ár að koma þeim þjóðgarði á koppinn af því að það voru ýmis álitamál sem m.a. vörðuðu beit og fleira, nákvæmlega eins og núna er rætt um í tengslum við miðhálendisþjóðgarð. Ég trúi því að stofnun þessa þjóðgarðs, því að hann mun verða til, verði framfaraskref fyrir íslenska þjóð. En um leið tel ég mikilvægt að (Forseti hringir.) við vöndum mjög vel til verka og það eru mín skilaboð til þeirra sem eru að vinna að þessu máli á vettvangi þingsins.