151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[13:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. Ég verð bara að vera innilega ósammála honum. Meðaltal, tekjutíund. Þetta segir okkur bara ekki neina sögu, segir ekkert um sögu þeirra sem eiga ekki húsnæði, eru á leigumarkaði, eða um öryrkja sem eru í þessari aðstöðu og fá úr lífeyrissjóði. Þetta fólk fær ekki kjarabætur. Þetta fólk er að reyna að lifa á 220.000 eða 250.000–300.000 kr. útborgað á mánuði. Þetta fólk verður fyrir keðjuverkandi skerðingum. Það er þetta fólk sem fær bara 1 kr. af hverjum 4 sem það setur inn í kerfið. Þess vegna hafa skerðingar í kerfinu stóraukist, 5 milljarðar á hverju einasta ári, 20 milljarðar. Það er vegna þess að þetta rennur í gegnum vasana hjá því fólki sem þarf mest á kjarabót að halda. Það hefur kannski aukist hjá þeim sem ekki þurfa á þessu að halda. En það hefur ekki aukist hjá þeim sem eru verst settir þarna og eru á leigumarkaði, það er alveg á hreinu. Ég er búinn að sjá hverja töluna á fætur annarri. Þetta fólk er að reyna að tóra á 220.000–230.000 kr. útborgað.