151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

hálendisþjóðgarður.

[13:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þann 8. desember síðastliðinn mælti hæstv. umhverfisráðherra fyrir lagafrumvarpi um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, lagafrumvarpi sem lengi hafði verið beðið eftir, enda eitt helsta baráttumál okkar umhverfisverndarsinna, bæði innan og utan þings, um áratugaskeið. Það var því gleðilegt að sjá blessað frumvarpið koma loksins inn í þingið þremur árum eftir að kveðið var á um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eftir alla vega tveggja ára samráðsvinnu og kynningarferli um allt land meðal ólíkra aðila.

Stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands yrði gríðarlega mikið framfaraspor í því að friðlýsa einstök ósnert og óbyggð víðerni miðhálendisins og sýna þeim svæðum þar með þá virðingu sem þau eiga skilið. Markmið frumvarpsins voru enda falleg og göfug, þó að ég hafi borið mikinn ótta í brjósti um ýmis atriði. Ég verð því að játa að það eru gríðarleg vonbrigði að sjá og heyra formann Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins skófla þessu risastóra máli út af borðinu með yfirlýsingum sínum nýverið þar sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði m.a. fyrir nokkrum dögum að hann teldi útilokað að frumvarpi um hálendisþjóðgarð í sinni í núverandi mynd yrði að lögum á þessu þingi, og hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrir fjórum dögum, með leyfi forseta:

„Ég held að það sé útilokað að það verði afgreitt eins og það var lagt fyrir þingið […] En málið mun ekki klárast eins og það liggur fyrir í þinginu.“

Þessi orð voru látin falla þrátt fyrir að gríðarleg eftirgjöf hafi orðið í meðförum hæstv. umhverfisráðherra gagnvart þeim öflum sem líta á miðhálendið eingöngu sem orkugjafa og til orkunýtingar í stað verndarsjónarmiða, sem eiga að vera meginmarkmiðið. Og hann galopnaði hreinlega á byggingu nýrra virkjana á viðkvæmum jaðarsvæðum miðhálendisþjóðgarðsins.

Herra forseti. Það hlýtur að teljast einstakur ósigur að taka svo umdeilt skref að opna beinlínis á nýjar virkjanir í jaðri þjóðgarðsins og missa almennan stuðning um miðhálendisþjóðgarð svo rækilega úr höndunum að almennur stuðningur fór úr 63% stuðningi árið 2018 í 31% í desember síðastliðnum. Því spyr ég (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra hvort þetta sé ekki ótrúlega dapurlegur ósigur, (Forseti hringir.) að ná ekki einu helsta meginmáli VG í gegn á þessu kjörtímabili.