151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar.

[13:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar á meðal er að finna auðlindaákvæði sem hefur verið umdeilt, eins og farið var hér stuttlega yfir áðan í óundirbúinni fyrirspurn. Hæstv. forsætisráðherra sagði þá að það væri ákvæði þar sem grundvallaratriðin ættu alla vega að vera til þess fallin að fólk gæti sætt sig við þau. Ég er ósammála þessu. Það eru tvö grundvallaratriði sem ekki er sátt um. Annað þeirra er gjaldtaka fyrir nýtingarrétt á auðlindum. Það er ekki það sem ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra út í hér og nú, enda krefst það meiri umræðu sem ég hygg að hún muni fá. Hitt er síðan tímabinding eða ótímabinding eða varanleg afnot af auðlindum. Í frumvarpi ráðherra, eins og kemur skýrt fram í greinargerð, er gert ráð fyrir því að heimildir til auðlindanýtingar séu uppsegjanlegar, þ.e. það sé hægt að taka þær til baka ef löggjafinn kýs að gera það, en þær séu hins vegar ekki endilega ótímabundnar. Nú hefur hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lagt fram breytingartillögu við sama efni þar sem er skerpt á þessu og nýtingarheimildir gerðar tímabundnar, svo það sé algerlega skýrt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða efnislegu málefnalegu rök sér hæstv. forsætisráðherra fyrir því að hafa nýtingarrétt á auðlindum ótímabundinn, jafnvel þótt afturkallanlegur sé? Ég get nefnilega einungis ímyndað mér eina ástæðan fyrir því að lögð sé fram einhver málamiðlun í þessu, það er til að þjónkast þeim fjárhagslegu hagsmunum sem standa að baki Sjálfstæðisflokknum. Önnur rök þekki ég ekki. Mér þætti vænt um að heyra viðhorf hæstv. ráðherra í þeirri von að hún geti rengt það.