151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar.

[13:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina þar sem hann gefur sér að ég leggi hér fram frumvarp til að þjónkast fjárhagslegum hagsmunum á bak við Sjálfstæðisflokkinn. Ég ætla að fá að segja að það er rangt hjá hv. þingmanni. Mér finnst þetta auðvitað fráleit ásökun sem hann kemur með. Ég fór ítarlega yfir þetta ákvæði og þetta frumvarp þegar ég mælti fyrir málinu og þá voru raunar sams konar sjónarmið uppi, um að ég væri að þjóna annarlegum hagsmunum. Mér þykir það leitt að við getum í alvöru ekki átt málefnalegt samtal um stjórnarskrána án þess að gefið sé til kynna að maður sé með annarlega hagsmuni að leiðarljósi, því að svo er ekki.

Auðlindaákvæðið er eins og önnur þau ákvæði sem lögð eru til í þessu frumvarpi; þar er verið að leitast við að hafa skýrar grundvallarreglur og horfa til þess að ákvæðið geti staðist bæði áreynslu þess að taka yfir mjög ólíkar auðlindir og að það geti sömuleiðis staðist til lengri tíma. Því er farið mjög ítarlega yfir það þegar rætt er um þessi mál í greinargerð með frumvarpinu að mjög ólík sjónarmið geti átt við, til að mynda þegar við ræðum um auðlindanýtingu á landi, auðlindanýtingu á orku, auðlindanýtingu á vatni, þannig að erfitt sé að stimpla það í stjórnarskrá hvað nákvæmlega við myndum t.d. kalla tiltekinn hóflegan tíma, eins og áður hefur komið fram í öðrum tillögum að auðlindaákvæði.

Ég hef sagt það skýrt að mér finnist merkingin í þessu ákvæði vera sú að þessar heimildir verði ekki afhentar varanlega, í merkingunni: Þær hljóta þá að vera tímabundnar eða uppsegjanlegar. Og það finnst mér gefa löggjafanum mjög skýrt svigrúm til þess að takast á við ólíka auðlindanýtingu með þeim hætti sem meiri hluti löggjafans kýs á hverjum tíma. Það er nokkuð sem verið hefur álitamál töluvert lengi og ég tel að þetta ákvæði leggi algerlega skýrar leikreglur um það. Ég bið bara hv. þingmann að virða það við mig að telja ekki að ég sé hér að ganga erinda annarlegra hagsmuna. Mér þykir mjög leitt að hann telji það í raun vera.