151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

endurgreiðslur ferðakostnaðar vegna krabbameinsskimana.

[13:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra gildir tiltekin reglugerð. Í þeirri reglugerð segir að þurfi læknir að vísa sjúkratryggðum frá sér til óhjákvæmilegrar sjúkdómsmeðferðar á opinberum sjúkrastofnunum eða hjá öðrum aðilum í heilbrigðiskerfinu taki Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði. Það er meginreglan. Ákvæðin gilda um lengri ferðir, þ.e. yfir 20 km, og þar kemur fram að Sjúkratryggingar taki þátt í tveimur ferðum á hverju 12 mánaða tímabili. Skilyrði er að læknir í heimabyggð sæki um ferðina og staðfesti að þjónustuna sé ekki hægt að fá í heimabyggð. Samkvæmt þessu sama ákvæði taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða umfram tvær á hverju 12 mánaða tímabili ef um er að ræða alvarlega sjúkdóma, svo sem illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega hjartasjúkdóma, alvarlega sjúkdóma barna, alvarlega geðsjúkdóma og alvarleg vandamál á meðgöngu.

Hv. þingmaður spyr hér um tiltekinn hóp. Þá er því til að svara að það eru engar sérreglur sem gilda um greiðslu ferðakostnaðar vegna aukins eftirlits eða fyrirbyggjandi aðgerða. Fyrirbyggjandi meðferð telst ekki meðferð vegna alvarlegs sjúkdóms og gildir sú almenna regla að ferðir vegna slíkrar meðferðar teljast til þeirra tveggja ferða sem almennt er heimilt að greiða fyrir á hverju 12 mánaða tímabili. Greiðsluþátttakan er hins vegar í stöðugri endurskoðun og líka endurgreiðsla ferðakostnaðar, sem kemur fram í þeirri reglugerð sem hér er rædd. Lækkun greiðsluþátttöku sjúkratryggðra er afgerandi þáttur í því að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.

Virðulegur forseti. Ég vona að ég geti svarað í mínu síðara svari betur varðandi sértæk áform sem lúta að þessari fyrirspurn hv. þingmanns.