151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

skýrsla um leghálsskimanir o.fl.

[14:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég bind vonir við að hæstv. forseti verði með ákveðna samantekt á öllum þessum ábendingum. Þetta eru margar og miklar ábendingar til forseta varðandi starfsemi þingsins og hvernig við fáum svör. Ég vil taka undir það sérstaklega að við fáum svör varðandi málaleitan forseta um að fá skýrsluna sem við höfum ítrekað kallað eftir og erum búin að bíða eftir í meira en sex mánuði, um yfirsýn yfir eignarhald 20 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna í öðrum greinum atvinnulífsins. En síðan er hitt, sem ég vil líka eindregið taka undir og kom fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að við myndum ekki ná að klára í þinginu fyrir kosningar, og mér finnst það miður, mér finnst það dapurlegt, mér finnst það lýsa metnaðarleysi, áhugaleysi, þ.e. að við munum ekki ná að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er nokkuð sem blasað hefur við, eitt af verkefnum ríkisstjórnarinnar. Henni var bókstaflega falið með þingsályktun að koma fram með málið. Það hefur ekki gerst (Forseti hringir.) og mér finnast það dapurleg ummæli um þessa ríkisstjórn og viðhorf hennar gagnvart fötluðu fólki.