151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[20:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að með þessu sé verið að ráðast í óhóflega takmörkun á frelsi fólks? Það er þekkt að nú þegar er mjög mörgum meinað að taka lán vegna einhvers konar greiðslumats þrátt fyrir að sama fólk oft og tíðum þurfi að borga meira mánaðarlega í leigu en næmi afborgunum af láni. Fólk gerir það, það greiðir sína leigu, samviskusamlega mánuð eftir mánuð, en fær hins vegar ekki að taka lán til að eignast húsnæði þótt greiðslubyrðin kunni að vera minni en leiguverðið. Samtök fjármálafyrirtækja sem hv. þingmaður vísaði í, þó að hann hafi ekki nefnt akkúrat þann kafla, benda einmitt á að þetta muni verða til þess fallið að takmarka möguleika, sérstaklega tekjulægra fólks, á að fá lán og koma sér upp húsnæði.