151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[13:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er raunveruleg hætta á því að þetta mál verði til þess fallið að draga enn úr möguleikum tekjulægra fólks á að fá lán til að geta keypt húsnæði og byggt upp eign. Það ætti að vera markmið okkar að gera þveröfugt, að auðvelda fólki að byggja upp hluti í eign jafnt og þétt. En þetta er ekki til þess fallið. Vandinn var þegar orðinn talsverður, eins og menn þekkja af mörgum dæmum um að fólk fái ekki að taka lán, fái ekki greiðslumat, þrátt fyrir að vera að greiða hærri upphæð mánaðarlega í leigu en það þyrfti að greiða af lánum. Þetta gengur gegn því jákvæða og mikilvæga markmiði að gera sem flestum kleift að eignast húsnæði og því styð ég það ekki.