151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[13:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við Píratar leggjum þetta til. Þetta er lágmarksviðmið til að koma til móts við þann fjölda manns sem er atvinnulaus akkúrat núna, að atvinnuleitendur séu ekki ofurseldir fyrirtækjunum sem hafa verið hvött til að hafa samband við Vinnumálastofnun og klaga þá ef þeir hafna störfum sem eru ekki við þeirra hæfi. Við höfum heyrt það frá verkalýðshreyfingunni að hún óttist að verið sé að ráða fólk aftur inn í ferðaþjónustuna á miklu lakari kjörum en þegar það var rekið úr ferðaþjónustunni áður en Covid byrjaði. Nú bætum við ofan á það þeirri kúgun að hægt er að klaga þau þannig að þau missi atvinnubæturnar ef þau taka ekki einhverju skítadjobbi með lúsarlaunum. Við erum bara að setja inn lágmarkskröfu um að fólk geti hafnað vinnu sem er ekki við þess hæfi. Eins og það sé ekki bara eðlilegt í velferðarsamfélagi? Svei, herra forseti.