151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[19:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið í ræðu minni. Ég var að koma inn á mjög áhugaverða umfjöllun um hagræn áhrif kvikmyndalistarinnar í riti eftir Ágúst Einarsson þar sem hann fjallar um störf í kvikmyndaiðnaðinum, að þau séu víða, í framleiðslu á myndrænu efni, í dreifingu, við sýningar o.s.frv., það þekkjum við, og öll þessi störf skipta máli. Síðan eru viðbótarstörf eða störf sem tengjast óbeint kvikmyndum, við að afla aðfanga frá öðrum fyrirtækjum eins og þegar kemur að gistihúsaþjónustu, flutningum og veitingahúsum og ýmiss konar þjónustu við kvikmyndaiðnaðinn. Þetta eru allt mjög mikilvæg störf, sérstaklega úti á landi þar sem verið er að taka kvikmyndir. Þá er þetta töluverð innspýting inn í efnahagsreikning þeirra sveitarfélaga og þjónustuaðila sem eru í námunda við staðinn þar sem kvikmyndin er tekin þannig að þetta eru svona afleidd störf. Ágúst Einarsson skrifar í riti sínu, með leyfi forseta:

„Innan hagfræðinnar eru þessi störf stundum tengd saman með margföldurum. Beinu áhrifin eru samkvæmt þessu talin utanaðkomandi eftirspurn sem drífur efnahagslífið áfram í óbeinu og afleiddu tilliti.“

Þannig skapast önnur störf. Störf eru í flestum tilfellum sjálfsprottin og það þarf ekki stjórnvöld til annars en að stuðla að eðlilegri umgjörð án fyrirstöðu, að aðstæðurnar fyrir fyrirtækin séu hvetjandi til þess að halda starfsemi úti, þar á meðal í skattalegu tilliti og að þeim sé búið gott rekstrarumhverfi svo þau geti fjölgað störfum. Áfram segir Ágúst:

„Einnig þarf að hafa í huga að innan efnahagslífsins hverfa störf og önnur verða til, allt eftir því hvernig eftirspurn þróast og hvernig framleiðnin er. Vinnumarkaður leitar jafnvægis, m.a. í raunlaunagreiðslum. Opinberir aðilar geta örvað eftirspurn, t.d. með auknum framkvæmdum eða skattalækkunum, eða dregið úr eftirspurn með minni umsvifum og skattahækkunum. Opinber fjármál gegna þannig veigamiklu hlutverki í hagstjórn og með peningamálastefnu opinberra aðila, þ.e. seðlabanka, ákveðast meginþættir opinberrar hagstjórnar.“

Þetta er allt sagt með skýrum og einföldum hætti þegar kemur að því að taka það helsta sem skiptir verulegu máli í hagstjórn hins opinbera.

„Þótt hér að framan sé varað við að ofmeta þátt einstakra atvinnuvega með margföldun starfa einna og sér er rétt að undirstrika að kvikmyndaiðnaðurinn, eins og önnur atvinnustarfsemi, er möskvi í stóru neti atvinnulífsins og hefur áhrif víða. Fyrri rökstuðningur stendur óhaggaður um nauðsyn þess að opinberir aðilar styðji við menningarstarfsemi, eins og kvikmyndagerð, m.a. vegna þess að um verðleikagæði er að ræða og menningarleg umsvif eru mikilvægir þættir í sjálfsmynd hverrar þjóðar auk þess sem þeir skipta efnahagslega miklu máli.“

Þetta er mjög vel að orði komist. Síðan segir hér:

„Opinberir aðilar fá einnig stærstan hluta framlaga sinna til baka og oft meira en það í formi skatta af umsvifum“ — þetta er mikilvægt að hafa í huga — „hvort sem um er að ræða kaup á vörum og/eða þjónustu eða launagreiðslur.“

Fjölmargir vinna í kvikmyndaiðnaði og við megum ekki gleyma því. Veltan í kvikmyndaiðnaði er umtalsverð, skatttekjur ríkisins af þessari veltu og launagreiðslur eru því mjög mikilvægar.

„Ísland hefur margt að bjóða erlendum ferðamönnum, sérstaklega fágæta náttúru. Ferðaþjónustan er þó orðin mun fjölbreyttari en áður og oft er rætt um menningartengda ferðaþjónustu eða menningarferðaþjónustu en með því átt við að einkum sé boðið upp á menningarlega upplifun, eins og listsýningar. Tónlistar- og kvikmyndahátíðir eru dæmi um þetta. Ferðamenn sem einkum sækjast eftir menningarlegri upplifun verja að meðaltali meira fé á ferðalögum sínum en aðrir ferðamenn og því er eftir nokkru að slægjast á þeim vettvangi.“

Allt hefur þetta margfeldisáhrif sem skipta máli og þar er kvikmyndagerðin ákaflega mikilvæg.