151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

ávana- og fíkniefni.

644. mál
[21:54]
Horfa

Frsm. velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni. Þar er verið að fjalla um iðnaðarhamp.

Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra sem fer með landbúnaðarmál setji reglugerð sem kveði á um veitingu leyfis til innflutnings á fræjum af tegundinni Cannabis sativa og skuli þar m.a. koma fram nánari skilyrði og takmarkanir á innflutningi, meðferð og vörslu þeirra fræja sem frumvarpið nær til.

Í allflestum umsögnum sem nefndinni bárust er frumvarpinu fagnað. Tekið var undir að málaflokkurinn ætti heima hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá var bent á að sökum undanþáguheimildar með breytingu á reglugerð sem gerði innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega, hefði ræktun hér á landi gengið vel. Það er reglugerð frá heilbrigðisráðuneytinu til að gera íslenskum bændum kleift að rækta hér iðnaðarhamp.

Nefndin ræddi jafnframt um vörur sem innihalda CBD, cannabidiol, og möguleika á að heimila slíka framleiðslu og markaðssetningu á Íslandi. Fékk hún þær upplýsingar frá ráðuneytinu að flókið væri að leggjast í svo umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu. Jafnframt kom fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hyggist skipa starfshóp sem muni fjalla um CBD-olíu þegar frumvarp þetta hefur verið afgreitt. Starfshópurinn muni fara sérstaklega yfir lög um matvæli, lög um ávana- og fikniefni og lyfjalög og leggja mat á nauðsyn þeirra breytinga sem gera þarf á framangreindum lögum svo framleiða megi og markaðssetja CBD-olíu hér á landi. Starfshópurinn muni jafnframt fara yfir þá vinnu sem á sér stað um þessar mundir á vettvangi Evrópusambandsins og varðar löggjöf um nýfæði og umsóknir um að CBD-olía falli þar undir. Miðað er við að starfshópur skili af sér niðurstöðum í formi skýrslu eða frumvarps til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi síðar en 1. desember 2021.

Nefndin fagnar þessari vinnu ráðuneytisins og telur mikilvægt að kannað verði með hvaða leiðum hægt sé að heimila framleiðslu og markaðssetningu á CBD-olíu hér á landi svo jafnræði ríki milli íslenskra framleiðenda og erlendra. Jafnframt ítrekar nefndin mikilvægi þess að vinnan verði kláruð. Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nefndarálit skrifar gjörvöll velferðarnefnd.

Mig langaði til að bæta við persónulega að ég tel þetta vera ótrúlega jákvætt og gott skref. Það er miður að við höfum ekki getað gengið frá þessu frumvarpi þannig að strax í sumar væri heimilt fyrir íslenska bændur að framleiða og markaðssetja vörur sem innihalda CBD. Það hlýtur að þykja mjög ósanngjarnt og asnalegt að við megum flytja inn vörur sem innihalda CBD og selja þær út um allt en að íslenskir framleiðendur, íslenskir bændur og íslenskir aðilar, megi ekki framleiða svipaðar vörur og markaðssetja hér heima. Þarna er augljóslega galli og það þarf að laga sem allra fyrst. Mér þykir miður að við gátum ekki gert það strax með þessu frumvarpi. Það var reynt og við fengum þau svör að það væri ekki hægt. Við Píratar erum með þingsályktunartillögu um CBD, en hún fjallar í raun og veru bara um það starf sem þegar er í gangi. Við Píratar fögnum því að það starf sé komið í gang í ráðuneytinu að skoða og ákveða hvernig eigi að gera þetta með CBD-olíuna. Ég vona að sú vinna muni klárast sem allra fyrst. Best væri ef það kæmi bara frumvarp frekar en skýrsla vegna þess að við þurfum eiginlega ekki fleiri skref. Það er nóg að taka það skref núna að þessi hópur skoði hvernig við getum breytt lögunum sem allra fyrst þannig að íslenskir bændur og framleiðendur þurfi ekki að bíða lengur eftir því að fá að fullvinna afurðina sína og nýta þann hluta plöntunnar til að framleiða hér CBD-vörur.

Annars fagna ég þessu máli og vona að við komum þessu í lag sem allra fyrst. Iðnaðarhampur er gríðarlega spennandi möguleiki fyrir íslenska bændur, fyrir okkur í nýsköpun og fyrir íslenska frumkvöðla að nýta sér þessa plöntu til að framleiða hér alls konar spennandi hluti.