151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[10:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú hafa þeir sem eru með hjúkrunarheimilin bent á að það vanti þarna inn 3,5 til 4 milljarða, ég man ekki alveg tölurnar, hvort það eru ekki upp undir 9 milljarðar. Nú á að setja þarna inn 1 milljarð og ég spyr hv. formann fjárlaganefndar hvort það sé ekki bara smáplástur á hallareksturinn. Það hefur verið fullyrt að mörg hjúkrunarheimili séu á ystu nöf og þetta bjargar því kannski að þau fari ekki fram af brúninni. En ég spyr líka út í lyfja- og hjálpartækjakostnað heimilanna og endurhæfingarkostnað — er verið að setja inn nægilegt fjármagn til hjúkrunarheimilanna svo að þau fái alla vega þann kostnað sem Covid hefur valdið þeim greiddan? Miðað við það sem ég hef séð, miðað við það hvaða kröfur heimilin gera, tel ég þetta ekki nægilegt til að koma rekstrinum í lag. Ég óttast líka, og spyr hvort hv. þm. Willum Þór Þórsson óttist það ekki líka, að þetta gæti farið að bitna illilega á þeim sem eiga að fá góða og almennilega þjónustu á hjúkrunarheimilum. Ég spyr hvort ekki hefði þurft að setja meira þarna inn til að tryggja að það fólk verði ekki fyrir skertri þjónustu.