151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[10:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir þessa spurningu. Við ræddum þetta mikið í nefndinni. Hvort þetta sé nóg eða hvort þetta mæti öllum hallanum — nei, það gerir það ekki og mér fannst hv. þingmaður í raun og veru draga fram þann vanda eða þær skorður sem voru á því að finna hina einu réttu tölu fyrir fjárlaganefnd. Það var til að mynda mjög erfitt fyrir fjárlaganefnd að draga út úr skýrslunni eina nákvæma tölu sem leysir allan vanda af því að daggjöldin fara á öll hjúkrunarheimilin og það er svolítið misjafn kostnaður þar á milli. Hér er verið að leggja til milljarð og ég minni á að það á eftir að rýna skýrsluna betur og skoða nánar hvernig hægt er að mæta vandanum.

Hér er settur inn milljarður sem er nokkurn veginn tapið 2019. Það var kannski erfitt að meta nákvæmlega hvernig þetta lagðist út af Covid, og hv. þingmaður kom inn á það, og hvernig þetta kæmi niður á hjúkrunarheimilunum. En Covid kemur sannarlega niður á öllum hjúkrunarheimilunum og ekki síst heimilismönnum eins og við þekkjum. Nefndin fór í vinnu í framhaldi af þessu og var að reyna að gera betur, bæta um betur, horfðist í augu við þennan vanda, hver talan væri og hvernig ætti að útfæra þetta. Nefndin hefur lagt áherslu á að lyf eru mjög misdýr og við þekkjum þá sögu sem endaði með því að við erum að setja 300 milljónir aukalega í sérstakan sjóð sem við teljum að geti komið að góðum notum fyrir hjúkrunarheimilin með tilliti til aukinnar hjúkrunarþyngdar. Og það er ákveðið samhengi þar á milli.