151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[10:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni framhaldsspurningu varðandi hjúkrunarheimilin. Og það er rétt, hér er verið að reyna að mæta þessum vanda í kjölfarið á þessari skýrslu sem beðið hafði verið eftir í þó nokkurn tíma. Ég ætla nú bara svona sem svar að árétta það sem kemur fram hérna, sjónarmið meiri hlutans, en ég hygg að það sé sjónarmið allrar nefndarinnar. Við reyndum að leita eftir frekari svörum. En það er til að mynda plan B að ef þátttaka í lyfjakostnaði einstaklinga verður innan almenna lyfjagreiðslukerfisins þá verður þetta mun skýrara. Þá lenda hjúkrunarheimilin kannski ekki í því að forðast að taka þá sjúklinga sem hafa hvað þyngstu umönnunarbyrðina og dýrasta lyfjakostnaðinn. Það er eitt. Ég bind vonir við það, þegar samið verður inn á næsta ár um daggjöld, og hægt verður að gera lagabreytingar og reglugerðarbreytingar (Forseti hringir.) sem snúa að hjálpartækjum og lyfjakostnaði, að þetta verði gagnsærra og skýrara og að við náum daggjöldum sem duga fyrir umönnun.