151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[10:59]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þó að það sé að birta til á vinnumarkaði nú um stundir þá eru samt sem áður um 20.000 manns atvinnulausir samkvæmt síðustu tölum Vinnumálastofnunar. Við gerum auðvitað ráð fyrir að þessi tala fari niður í sumar en samt sem áður gera spár ráð fyrir að hér verði 6–7% atvinnuleysi 2023 og 5% atvinnuleysi 2026. Eftir bankahrun sameinuðust ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, stjórnarliðar í Vinstri grænum og Samfylkingunni og ASÍ og SA um ýmis úrræði á vinnumarkaði, m.a. að lengja atvinnuleysistímabilið, sem þá var þrjú ár, í fjögur ár. Menn voru sammála um að þetta væri góð aðgerð. Nú hafa ASÍ, sveitarfélögin og Samfylkingin hér á þingi kallað eftir því að atvinnuleysistímabilið verði lengt í því ástandi sem við glímum við en ríkisstjórnin og Samtök atvinnulífsins hafa verið á móti þeirri aðgerð. Nú er það svo að um 110 manns á mánuði detta út úr kerfinu og þeim mun fara fjölgandi ef áætlanir ganga eftir þegar líður á árið. Fólk sem búið er að vera atvinnulaust í tvö og hálft ár mun því svo hundruðum skiptir þurfa að leita á náðir félagsþjónustu sveitarfélaganna og til hjálparstofnana eftir mat. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það ásættanlegt að beina fólki í sárafátækt í þessari efnahagslægð og spyr hvort hann geti ekki hugsað sér að greiða atkvæði breytingartillögu Samfylkingarinnar um að lengja atvinnuleysistímabilið um sex mánuði.