151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[11:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir þessa spurningu. Þetta snýr að frumvarpi sem verið hefur til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd og ég hef aðeins reynt að fylgjast með því. Við í fjárlaganefnd þekkjum málefni Íslandspósts og þessar breytingar á lögum. Síðan var það ákveðið í umhverfis- og samgöngunefnd, í tengslum við þessa lagabreytingu, að það yrði eitt verð fyrir allt landið. Mikil samstaða var um það og í því fólst aukinn kostnaður en á móti hefur komið þó nokkur gagnrýni á Íslandspóst, það gerir þeim eilítið erfitt fyrir í sinni verðmyndun. Það er Póst- og fjarskiptastofnun sem kemur með ákvarðanir sem tengjast verðákvörðunum Íslandspósts. Það eru því ákveðin vandkvæði sem hafa fylgt því.

En nú kom hv. þingmaður inn á þennan starfshóp. Ég veit að þetta hefur verið til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd að því leyti að þessi hópur, og nú fara þessi málefni undir Byggðastofnun, skoði einmitt einhvern jöfnunarsjóð, mögulegan, og hvernig megi jafna þetta verð og mæta þeim aukna kostnaði. Þetta er auðvitað á mjög afmarkaðan hluta sendinga þannig að leggja þarf mat á þennan kostnað. Ég hef ekki enn séð nákvæma tölu um mat á þeim kostnaði sem varð vegna þess að það var eitt verð fyrir allt landið þannig að ég get ekki svarað því. En ég myndi alltaf styðja það að það væri jafnræði fyrir alla landsmenn um að fá póstinn heim.