151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[11:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021 og það verður bara að segjast alveg eins og er að það veldur mér miklum vonbrigðum hvernig ríkisstjórnin getur, og hún hefur gert allt tímabilið, líka í Covid, skilið eftir einn hóp, þ.e. aldraða, án þess að auka á nokkurn hátt tekjur þeirra, því miður. Eiginlega það skelfilegasta óréttlæti sem ég hef séð gagnvart eldra fólki, er gagnvart þeim sem lifa í búsetuskerðingum. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að við skulum geta sett þannig lög á að einhver eigi að fá lágmarksellilífeyri, en að það eigi ekki að vera raunin, heldur 10% lægri en lágmarksellilífeyrir — 10% lægri.

Hvað er lágmarksellilífeyrir hár í dag? Ef við tökum einstakling í sambúð eru það um 233.000 kr. útborgað. Þeir sem eru einir fá um 30.000 kr. meira, eða um 260.000 kr. Við sjáum það í hendi okkar að ef við tökum 10% af þessum 233.000 kr. þá erum við að tala um 210.000 kr. útborgaðar til að lifa af. Ég hefði vonað að einhvers staðar, á einhverju tímabili hefði verið sett inn eitthvað til að breyta þessu, í fjáraukann eða eitthvað. Ríkisstjórnin er búin að fá næg tækifæri til þess að reyna að gera eitthvað fyrir þennan hóp, en einhvern veginn hefur henni tekist að kóróna það og gera þennan hóp enn þá verr staddan með því að setja inn krónu á móti krónu skerðingar aftur, taka upp það ótrúlega fjárhagslega ofbeldi sem felst í því að setja krónu á móti krónu skerðingar. Ef einhver hópur hefði átt að sleppa við krónu á móti krónu skerðingar þá er það þessi hópur, ef það væri eitthvað til að ná þessum hópi upp úr sárafátækt. Nei, það er ákveðið að setja hann í sárafátækt og þar skal hann vera, sama hvað á dynur. Hann á ekki möguleika á að bjarga sér. Ef við förum á bls. 12 í fjáraukanum er þar liður nr. 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks, og svo kemur liðurinn á eftir, nr. 29 Fjölskyldumál. En þarna á milli á að vera 28 Málefni aldraðra, en það er bara autt, ekkert. Þetta lýsir nákvæmlega því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera fyrir þennan hóp: Ekkert, heldur þvert á móti, að koma fólki í verri og verri mál fjárhagslega. Kannski munu þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn núna koma aftur með frasann fyrir næstu kosningar: Búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, með auðri blaðsíðu og engu.

Það er eiginlega sorglegt í þessu samhengi með fjáraukann, varðandi málefni öryrkja og fatlaðs fólks, að þar er svo til ekkert. Það eru 20 milljónir. Það eru nú öll ósköpin. Þannig að þetta sýnir svart á hvítu forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar, eins og hefur líka komið vel fram í fjármálaáætluninni, þar er engar hækkanir. Það er ekki einu sinni reynt að halda í launavísitölu heldur eingöngu neysluvísitölu. Og hvergi er neitt um það að taka á og/eða afturkalla kjaragliðnun, sem lofað var af ákveðnum flokkum sem eru í ríkisstjórn, að hún yrði leiðrétt. Við megum aldrei gleyma því vegna þess að í bankahruninu á sínum tíma var almannatryggingalífeyririnn skertur um 10% og því var lofað statt og stöðugt að það yrði það fyrsta sem þingið leiðrétti, en það var aldrei leiðrétt. Þess vegna er kjaragliðnun orðið svona rosalega mikil.

Ef við horfum á þetta í grófum dráttum erum við að tala um nær 100.000 kr. hækkun. Ef við tækjum allt inn í, bæði kjaragliðnunina og skattinn og annað, þá værum við ekki að tala um að einhver ætlaði að reyna að tóra á 233.000 kr. útborgað heldur 333.000 eða jafnvel 350.000 útborgað. Það værum við komin á sama stað og við vorum 1988 þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp. En því miður er það ekki inni í þessu dæmi.

Síðan er merkilegt að það skuli hvergi vera tekið á því, hvorki í fjárauka, fjárlagafrumvarpi né fjármálaáætlun, varðandi þessar skerðingar, þessar ótrúlegu skerðingar í þessu kerfi, að við skulum geta leyft okkur að vera með kerfi þar sem við getum skert frá 75% upp í 100%, að hver 100 þúsundkall skili kannski 25.000 eða 26.000 kr. eða engu. Sérstaklega ef við setjum það í það samhengi við að lífeyrissjóðsgreiðslur eru að stærstum hluta fjármagnstekjur. Ef við værum með sama hugsunargang gagnvart lífeyrissjóðunum og við erum varðandi arðgreiðslur, þá værum við ekki að skattleggja þetta nema um 22%. Það væri stórkostlegt skref ef það væri gert. En það hefur ekki verið svo.

Við erum í ótrúlega skrýtinni stöðu með t.d. hjúkrunarheimilin, eins og ég ræddi hér um áðan við hv. formann fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, bæði hvar kreppir að þessum heimilum, og líka varðandi þá ótrúlegu stöðu að eftir fjögur ár hjá þessari ríkisstjórn skuli vera ótrúlegur fjöldi eldri borgara fastur í dýrasta úrræðinu sem hægt er að velja, þ.e. inni á sjúkrahúsum, inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þetta veldur þvílíku álagi á spítalanum að það er með ólíkindum. Þetta var rætt strax í upphafi á fyrsta tímabili þessarar ríkisstjórnar. En það er ekkert gert, því miður. Það eru bara smá plástrar og hlutirnir halda áfram óbreyttir. Ef við setjum það í samhengi við það sem við töpum, fjármunina sem fara í hjúkrunarheimilin og fjármunina sem fara í að halda eldri borgurum inni á sjúkrastofnunum — þarna eru himinn og haf á milli í kostnaði, sem segir okkur að bara það að koma hjúkrunarheimilum að og koma því þannig fyrir að byggð verði fleiri hjúkrunarheimili, yrði gífurlega fljótt að borga sig upp. En því miður eru bara settir plástrar á það eins og er með flest hérna í þessu kerfi.

Við höfum líka orðið svolítið fyrir vonbrigðum með átakið Hefjum störf. Ég hefði búist við því að inni í þeim pakka hefði það verið þannig að hægt væri að leiðrétta þá ótrúlegu mismunun sem er gagnvart t.d. stúdentum og fleiri, það getur líka átt við eldri borgara, þ.e. að vinna og þurfa að borga inn í Atvinnuleysistryggingasjóð en fá ekkert út sjóðnum, að maður sé látinn borga í einhvern sjóð en maður fær ekkert út úr honum þegar á þarf að halda. Það hlýtur að flokkast undir hálfgerða eignaupptöku vegna þess að ef maður fær ekkert út úr því sem maður borgar inn í þá á maður hreinlega ekki að borga í það, það á ekki að vera mjög flókið mál. En einhvern veginn flækist þetta fyrir kerfinu og sérstaklega ríkisstjórninni að sjá til þess að laga það. Og það sem er kannski furðulegast í þessu, eins og komið hefur fram varðandi Hefjum störf, er að búið er að afgreiða einhver 3.000 störf en sagt að 9.000 hafi beðið um störf, en þetta áttu að vera 7.000 störf. Ég verð eiginlega kjaftstopp þegar ég hitti fólk sem segir: Ég er í félagsbótakerfinu. Ég fann mér vinnu, ég varð svo glaður þegar ég sá að nú ætti að hefja þetta átak, Hefjum störf, að ég fann vinnu og ætlaði að fara að vinna. En nei, ég fékk bara hreint nei vegna þess að ég passaði ekki inn í kassann. Það var búið að sníða lögin þannig að aðili sem er á félagsbótum — spáið í það; á félagsbótum, vegna þess að félagsbæturnar eru versta form sem maður kemst í. Þar er maður meira að segja háður tekjum maka. Ef samanlagðar tekjur heimilisins eru yfir 340.000 kr. þá byrjar allt skerðast, króna fyrir krónu. Þetta eru einstaklingar sem eru kannski búnir að vera það lengi inni í þessu kerfi og ef einstaklingur sem er búinn að vera heillengi inni í svona kerfi og vill komast út þá hlýtur það að vera það fyrsta sem hver ríkisstjórn ætti að segja við hann: Já, komdu. Þú færð þetta starf. — En ekki þessi ríkisstjórn: Nei, kerfið var ekki byggt fyrir þig. Það er einhver annar sem á að fá þetta.

Ég verð að segja að maður skilur þetta ekki, en kannski hefur það eitthvað með það að gera að við erum með 307.000 kr. í atvinnuleysisbætur, en þarna var um að ræða 472.000 kr., ef ég man rétt, og 11% í lífeyrissjóð, sem verið var að setja þarna inn í.

Það segir okkur að það er örugglega mun meiri aðsókn í Hefjum störf. Þetta segir mér líka hvers vegna við erum alltaf að mismuna í þessu kerfi. Við getum séð það á eldri borgurum, öryrkjum, félagsbótakerfinu, síðan koma atvinnulausir. Það er alltaf einhver mismunun í gangi. Sumir geta lent inni í kerfi þar sem þeir hafa það skítt, aðrir geta lent inn í kerfi þar sem þeir hafa ágætt, en það virðist aldrei vera hægt að búa til hið eina rétta kerfi þar sem allir eru sáttir. Ég held að hindrunin þar sé það sem ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hummar fram af sér, og það er að reikna út rétta framfærslu sem fólk getur lifað á með reisn og sérstaklega þegar um er að ræða fjölskyldufólk með börn. Við erum í skrýtinni stöðu ef við gerum það ekki.

Annað sem er líka sorglegt í þessum fjárauka og í fjárlögum yfir höfuð er við vitum að eftir Covid mun ásókn í alls konar endurhæfingu aukast gífurlega, en það virðist ekki eiga að leysa þau mál. Það virðist ekki vera búið að samþykkja eða ganga frá því þannig að það gangi vel. Það virðist vera að stéttir eins og sjúkraþjálfar og jafnvel talmeinafræðingar og fleiri fái ekki samninga, sérgreinalæknar eru að hætta og fara, loka bara, og við horfum núna upp á bráðadeild Landspítala í þeirri stöðu að það er hreinlega bara hættuástand. Og hvað er líka að gerast? Jú, mannekla. Mönnunin er að verða stórt vandamál. Hvers vegna í ósköpunum skyldi það vera? Jú, vegna þess að fólk er hreinlega að brenna út í starfi. Álagið vegna Covid er að skila sér og það álag kemur ofan á það álag sem við urðum fyrir vegna niðurskurðar út af bankahruninu. Við erum varla búin að jafna okkur á því þegar þetta áfall verður. Við sjáum hvað það hefur gífurleg áhrif ef við horfum bara á börnin okkar. Það voru alveg skelfilegar tölur sem blöstu við í morgun, að það væri allt að 50% aukning á þunglyndi og kvíða meðal unglinga — 50% aukning. Þetta er gífurlegt og grafalvarlegt mál. Þetta virðist ekkert vera séríslenskt fyrirbrigði heldur er þetta hreinlega vandamál alls staðar í Evrópu.

Aðalvandamálið er, og það kom fram, að það væri stór hópur af þessu unga fólki, frá 18–34 ára, sem hefði ekki efni á að fara til sálfræðings eða geðlæknis. Það segir okkur að það er rosalega mikið að í kerfinu og það segir okkur líka að okkur ber skylda til þess að taka á því. Það þarf einhvern veginn að grípa inn í. Það hefði verið hægt, kannski með fjárlögum. Kannski er vandinn ekki bara fjárhagslegur heldur líka mönnunarvandi. Og þá spyr maður: Hvers vegna? Hvað er það í okkar samfélagi sem veldur því að fólk vill ekki vinna við þau störf sem það hefur menntað sig til í heilbrigðiskerfinu? Þarna er akkúrat þetta gífurlega álag, að fólk er hreinlega að brenna út í starfi, getur ekki hugsað sér að vinna áfram og getur það hreinlega ekki. Það á auðvitað að valda okkur áhyggjum.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta neitt rosalega mikið lengra. Ég vil bara benda á að okkur ber skylda til þess, og það ætti að vera skylda í fjárlögum að við sæjum til þess, að enginn búi eða þurfi að lifa með börn í sárafátækt. Að við skulum ekki vera búin að gera það núna árið 2021. Að við skulum vera með á annan tug fjölskyldna og barna í fátækt, og helmingurinn af þeim er jafnvel í sárafátækt, og hlutfallið eykst vegna þess að tekjurnar dragast saman vegna þess að það er alveg sama hvað hver segir; á meðan við reiknum allt í prósentum þá skilar þetta sér ekki. 10% af 220.000 kr. eru ekki nema 22.000. En ef við setjum þau 10% ofan á milljón þá sjáum við að það eru 100.000 kr. Það er næstum því fimm sinnum meira. Meðan við höfum kerfið svona þá hafa þeir verst settu það alltaf verr og verr, og þeir sem hafa það best hafa það sífellt betra og betra.

Þetta endurspeglast líka í því sem ég sagði, að það skuli vera hægt að taka lögþvingaðan, eignaupptökuvarinn lífeyrissjóð og snúa því við — að vísu taka þeir ekki lífeyrissjóðinn heldur nota þeir Tryggingastofnun til að minnka greiðslurnar á móti. En að það skuli vera hægt að gera það 75%–100%. Á sama tíma að það skuli ekki vera þá 80% skattur á þá sem hafa milljarða milli handanna, og þeir fái þá að halda 20%, eins og lífeyrissjóðirnir, og jafnvel væri hægt að skerða meira. Það dettur engum hug. En einhvern veginn eru þeir fastir og ákveðnir í því að það sé bara í lagi að gera það við þá verst settu, og það sé í lagi að setja þetta fólk í þá aðstöðu að það þurfi að velja frá upphafi mánaðarins hvað það ætlar að hafa í matinn, hvort það hefur hreinlega efni á því. Það hefði ég viljað sjá útfært nákvæmlega í þessum fjárauka, að við tækjum þó alla vega þessa örfáu einstaklinga, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, sem lifa í fátækt — en þegar það kemur að því og ég spurði: Af hverju gerir þú það ekki? Þá kemur svarið: Hvar eigum við að fá fjármuni til þess?