151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[12:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög áhugaverða ræðu. Þingmaðurinn eyddi töluverðum tíma í ræðu sinni til að fara yfir þau vinnubrögð sem eru viðhöfð hér á Alþingi og hinum megin, hjá framkvæmdarvaldinu, vil ég leyfa mér að segja. Mér fannst mjög áberandi, eftir að hafa hlustað á hv. þingmann, að það virðist vera gegnumgangandi hjá okkur, og ég get tekið undir þann tón sem er í þeim orðum, að við gefum okkur ekki tíma til að vinna málin nógu vel. Málin koma mjög hratt inn í þingið, jafnvel stórmál, eins og hv. þingmaður vitnar hér til. Það er mikil pressa á að klára þau hratt. Gestir koma jú, en það er gefinn of lítill tími til að ræða við þá. Þetta mætti hugsanlega bæta með því að framkvæmdarvaldið kæmi fyrr fram með málin, betur unnin, með meiri upplýsingar, eins og það sem hv. þingmaður er að kalla eftir, til að leggja fyrir þingmannanefndirnar: Þetta voru þeir valmöguleikar sem við veltum fyrir okkur í þessu máli, í þessu atriði. Þetta var það sem við töldum hægt að gera og við áttum að fara þessa leið. Það sem gerist við þetta er að þingnefndirnar, líkt og fjárlaganefnd, sem hv. þingmaður situr í, geta sagt: Af hverju prófum við ekki þetta? Við sjáum að þið hafið ekki skoðað þetta.

Með því að gefa málunum meira andrými, með því að upplýsa betur um forvinnuna, kosti og galla við þær hugmyndir sem koma fram, er hægt að láta þingið virka miklu betur. Ég tek mjög vel og heils hugar undir þetta hjá hv. þingmanni. Vonandi getur Alþingi komið þessu í aðeins betri farveg þegar fram líða stundir. Það er of algengt að við séum að vinna hlutina á hlaupum eða með engan tíma fyrir okkur. Þá verða mistök eða við veljum rangar aðferðir.