151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[12:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þingi lýkur á næstu dögum. Þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga er trúlega síðasta verk hennar í fjármálum ríkisins á þessu kjörtímabili. Frumvarpið er að mestu leyti staðfesting á aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til. Við í Viðreisn höfum, í samræmi við yfirlýsingar okkar í upphafi faraldurs, stutt allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í baráttunni við hann. Við höfum samt verið gagnrýnin á margt í þeim aðgerðum og lagt til aðrar leiðir á mörgum sviðum en á það hefur ekkert verið hlustað. En í sumum tilvikum hefur ríkisstjórnin gert þær að sínum, þó ekki fyrr en á síðari stigum.

Herra forseti. Það er bæði rétt og skylt að geta þess að það er ein umtalsverð undantekning frá því að hér sé fyrst og fremst um að ræða staðfestingu á því sem þegar hefur verið ákveðið og það er framlag til reksturs hjúkrunarheimila. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þau fái um 1 milljarð til hækkunar á daggjöldum til rekstursins ásamt 300 millj. kr. framlagi í sérstakan sjóð til að koma til móts við kostnað vegna þeirra heimilismanna sem þurfa mesta og dýrasta þjónustu. Þetta er vel.

Ég ætla þó að fullyrða að þessir fjármunir séu alls ekki nægir, a.m.k. ekki ef tekið er mark á því sem fram kom og fram hefur komið, bæði af hálfu þeirra hjúkrunarheimila sem rekin eru af einkaaðilum en einnig þeirra sem rekin eru af sveitarfélögunum. Að auki hefur verið bent á að talsvert vanti upp á að mörg heimili geti veitt þá þjónustu sem mælt er fyrir um af hálfu landlæknis. Ýmsar tölur hafa verið nefndar í þessu samhengi en ég fullyrði að enginn hefur sagt að 1,3 milljarðar dugi til. Vandanum er því velt yfir á næsta kjörtímabil og verður höfuðverkur þeirra sem verða kjörnir á þing í haust og þeirrar ríkisstjórnar sem þá verður mynduð.

Herra forseti. Í fréttum RÚV í gær kom fram hjá Runólfi Pálssyni, forstöðumanni lyflækninga- og bráðaþjónustu Landspítalans, að ástandið hefði aldrei verið verra. Í viðtalinu kom fram að 120 af rúmlega 600 legurýmum spítalans væru bundin af sjúklingum sem ættu í raun ekki heima á spítalanum og biðu úrlausnar utan spítalans. Þetta væri búið að vera viðvarandi ástand sem yrði að leysa strax. Runólfur sagði að af þessum 120 sjúklingum væru 90 sem bíða eftir vistun á hjúkrunarheimili. Runólfur segir svo, með leyfi forseta:

„Ég held að þetta sé hæsta tala sem ég hef heyrt um þá sem bíða eftir öðru þjónustuúrræði. Ég get ekki séð betur en að sú tala geti hækkað og sá fjöldi aukist sem er að bíða eftir svona úrræði. Það ræður enginn spítali við þetta til lengdar.“

Herra forseti. Þetta ástand er auðvitað óþolandi. Úrlausn er brýn en vandinn hefur lengi blasað við öllum. Í þessu samhengi vil ég benda á að það eru sex mánuðir síðan að fjármunir voru veittir til þess að útvista 100 hjúkrunar- eða öldrunarrýmum til að leysa vanda Landspítalans. Það var svo ekki fyrr en fyrir þremur mánuðum að verkefnið var loks boðið út. Nokkrir aðilar buðu í verkefnið en enn bólar ekkert á niðurstöðu. Sjúkratryggingar Íslands eru enn að skoða málin þremur mánuðum eftir að útboði lauk. Engin afstaða hefur verið tekin til tilboða. Engir samningar gerðir. Útboðið fór sem sagt fram, fjármunirnir eru til, aðilar eru klárir í verkefnið og nú, þegar forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu Landspítalans segir ástandið aldrei hafa verið verra, virðast heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar ekki hafa getu eða vilja til að klára verkefnið. Þetta er óþolandi sleifarlag sem ríkisstjórnin í heild getur ekki vikið sér undan. Því miður læðist að manni sá grunur að hér kunni að ráða andúð hæstv. heilbrigðisráðherra á því að einkaaðilar taki að sér verkefni í heilbrigðiskerfinu. Sú andúð er ekkert sérstakt fréttaefni en það er fréttaefni ef Sjálfstæðisflokkurinn lætur þetta yfir sig ganga.

Herra forseti. Við umræðu um fjármálaáætlun þann 26. maí sl. sagði ég, með leyfi forseta:

„Sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd á ég þess ekki kost að setja fram sérstakt nefndarálit. Þessi ræða verður því að þjóna þeim tilgangi jafnframt. Ég verð að segja að ég velti því mjög mikið fyrir mér hvort við í Viðreisn ættum að leggja í þá vinnu að setja fram breytingartillögur við þessa fjármálaáætlun. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki og ástæðan fyrir því er afar einföld: Við í Viðreisn höfum á þessu kjörtímabili lagt okkur fram um að leggja fram vandaðar tillögur til breytinga á fjárlögum, fjáraukum og fjármálaáætlunum. Það er skemmst frá því að segja að vinnulag stjórnarflokkanna sem hér ráða ferðinni er þannig að þeir hafa sammælst um að samþykkja ekki neitt sem frá Viðreisn kemur, og raunar öllum stjórnarandstöðuflokkunum eins og þeir leggja sig ef út í það er farið. Niðurstaða okkar varð því sú að tillögugerð að þessu sinni væri sóun á tíma okkar, sóun á tíma þingsins og sóun á pappír.“

Herra forseti. Þessi tilvitnuðu orð eiga enn við þó að nú séum við að ræða frumvarp til fjáraukalaga. Hins vegar get ég ekki annað en lagt fram breytingartillögu við þessi fjáraukalög vegna þess að málið er einfaldlega þannig vaxið að við alþingismenn getum ekki verið þekktir fyrir annað en að bregðast við því ótrúlega óréttlæti sem fötluð börn eru beitt með því að neita um skólavist hluta þeirra nemenda sem nú ættu að setjast á skólabekk með félögum sínum á starfsgreinabrautum framhaldsskólanna. Það eru um 30 ungmenni sem hafa verið fötluð frá fæðingu sem fá ekki inngöngu á starfsgreinabrautum framhaldsskólanna nú í haust. Vandinn virðist að mestu bundinn við höfuðborgarsvæðið. Því er borið við að nú sé um óvenjulega stóran árgang að ræða en má segja að það hljóti að hafa verið vitað síðastliðin 16 ár að skólakerfið þyrfti að geta tekið við þessum börnum haustið 2021. Stærð árgangsins getur ekki hafa komið yfirvöldum á óvart.

Herra forseti. Landssamtökin Þroskahjálp sendu í gær frá sér eftirfarandi yfirlýsingu sem ég ætla að lesa hér því að hún skiptir miklu máli:

„Í síðustu viku sendu kennslustjórar sérnámsbrauta/starfsbrauta í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir vonbrigðum og óánægju með innritunarferli á sérnámsbrautir og starfsbrautir.

Í yfirlýsingunni eru annmarkar á inntökuferlinu gagnrýndir þar sem það komi niður á undirbúningi nýrra nemenda sem hefja framhaldsskólanám í haust. Þá gagnrýna kennslustjórarnir aukna kröfu um að taka æ fleiri nemendur inn á brautirnar og segja þá þróun bitna á námsumhverfi og einstaklingsmiðuðu námi. Kennslustjórarnir hvetja til þess að sérnámsbrautum/starfsbrautum verði fjölgað og að allir framhaldsskólar bjóði upp á slíkt nám og taki þannig þátt í því að skapa skólasamfélag án aðgreiningar. Loks er í yfirlýsingunni bent á að fjöldi nemenda sem innritast á sérnámsbrautir ætti ekki að koma skólayfirvöldum á óvart þar sem einfalt er að nálgast tölulegar upplýsingar frá grunnskólum með góðum fyrirvara.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að framfylgja, er fjallað um réttinn til menntunar í 24. gr.

Þar segir meðal annars:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum.“

Landssamtökin Þroskahjálp harma þá stöðu sem upp er komin vegna innritunar á starfsbrautir framhaldsskólanna og taka heils hugar undir yfirlýsingu kennslustjóranna.

Það er með öllu óásættanlegt að menntakerfið geri ekki ráð fyrir öllum útskrifuðum ungmennum úr grunnskóla í nám á framhaldsskólastigi.

Bið sem þessi setur fötluð ungmenni í afar vonda stöðu. Það er með öllu óforsvaranlegt að ekki hafi verið gerðar ráðstafanir af hálfu hlutaðeigandi skólayfirvalda í tíma þar sem legið hefur lengi fyrir hversu fjölmennur hópurinn er ár hvert.

Landssamtökin Þroskahjálp krefjast þess að öllum nemendum sem vilja innritast á starfsbraut verði tryggð hnökralaus innritun og góðar og styðjandi aðstæður til náms þar sem þörfum hvers og eins nemanda er mætt.“

Herra forseti. Ágætu þingmenn. Hugsið ykkur nú eitt augnablik að vera fatlað barn sem hefur hlakkað til þess að fara af einu skólastigi yfir á annað með félögum sínum. Svo taka tilkynningar að berast um að Nonni vinur sé kominn inn í þennan skóla, Stína vinkona inn í hinn og svo áfram og áfram. En Siggi og Sigga bíða hins vegar og engin tilkynning um skólavist berst þeim. Þau eru skilin eftir af því að það er ekki pláss og peningar til að sinna þeim. Er hægt að hugsa sér nokkuð dapurlegra fyrir þessi börn og aðstandendur þeirra? Nei, það held ég varla. Það er af þessum sökum sem ég mun leggja fram breytingartillögu milli 2. og 3. umr. um fjáraukalög sem felur í sér 110 millj. kr. fjárveitingu til að rétta hlut þessara 30 barna sem eru svona miklum rangindum beitt.

Herra forseti. Í upphafi ræðu minnar vék ég að því að þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga væri síðasta verk hennar í fjármálum ríkisins á þessu kjörtímabili. Við í Viðreisn höfum gagnrýnt margt í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og varað við því að það stefndi þegar í óefni árið 2019. Rekstur ríkisins væri orðinn ósjálfbær. Umsvif ríkisins væru að vaxa umfram skynsamleg mörk, aðhald og endurskoðun verkefna væri ónóg og ekki væri gengið nógu langt í því að skapa umhverfi til langs tíma til að efla hugvitsdrifin útflutningsfyrirtæki, og síðast en ekki síst væru gengissveiflur og verðbólga og vextir hér með þeim hætti að ekki verði við unað. Við því eru til lausnir sem ríkisstjórnarflokkarnir þrír vilja ekki ræða. Þeir virðast því miður bundnir sérhagsmunum einhverra og geta ekki slitið þau bönd af sér. Þess vegna, herra forseti, er gott að valdatíma þessa tríós lýkur innan skamms.