151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[13:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Já, það er þetta með einkareksturinn, það virðist klárlega vera þannig að þegar ber að þeim brunni fari mjög mikill sandur í öll tannhjól í kerfinu. Eins og ég nefndi í ræðu minni kemur það í sjálfu sér ekkert á óvart. Ég held að það sé óumdeilt yfirlýst stefna hæstv. heilbrigðisráðherra að einkarekstur sé ekki æskilegur í heilbrigðiskerfinu og að best sé að þetta sé allt saman á vegum hins opinbera. Ég skil það ekki. Ég skil það ekki því að það er alveg hægt að koma þessu fyrir samhliða. Það þýðir ekki að einkareksturinn eigi að hafa einhvern sjálftökurétt eða eitthvað svoleiðis. Það á að gera kröfur til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu og hafa gæðaeftirlit og fylgja því mjög strangt eftir. Það á reyndar líka að gera í opinbera kerfinu þannig að menn séu á svipuðum grunni. Menn geta auðvitað rekið einkafyrirtæki vel eða illa en menn geta líka rekið ríkisfyrirtæki vel eða illa. Ég held að mjög mikilvægt sé að setja þennan grunn.

Dæmið sem ég nefndi sérstaklega var að fyrir hálfu ári var veitt sérstakt fjármagn til þess að bjóða út rými til að leysa vanda Landspítalans. Fjármunirnir voru því komnir fyrir hálfu ári, útboðið fór fram fyrir þremur mánuðum, búið er að bjóða í verkið, aðilar eru „stand by“, það er neyðarástand á Landspítalanum. En engir samningar líta dagsins ljós. Ég ætla svo í síðara andsvari að fá aðeins að koma inn á síðari hluta spurningar hv. þingmanns.