151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í fyrri ræðu var ég byrjaður að fjalla um áhrif þessa frumvarps á heilbrigðiskerfið, og hins vegar hvað frumvarpið sjálft, og reyndar einnig álit meiri hluta fjárlaganefndar, segir okkur um vanda þess kerfis. Ég ætla að bíða aðeins með framhald þeirrar umræðu og vinda mér næst í vinnumarkaðsaðgerðirnar. Umfjöllun mín um heilbrigðshlutann tengist á vissan hátt því sem ég þarf að fara yfir í vinnumarkaðshlutanum, eins og kemur í ljós hér á eftir ef tími vinnst til. Vinnumarkaðsaðgerðirnar, sem tengjast auðvitað að öllu leyti atvinnuleysisþróuninni, sýnist mér, eru langstærsti útgjaldaliðurinn í þessu fjáraukafrumvarpi, sá langsamlega stærsti. Til upprifjunar fyrir áheyrendur eru það fyrst og fremst tvær aðgerðir sem eru stærstar og svo aðrar heldur minni sem fylgja með.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 4.400 millj. kr., sem eru ný útgjöld til að mæta auknum styrkjum til endurráðningar í fyrra starfshlutfall, þ.e. þegar fyrirtæki hafa dregið úr starfshlutfalli fólks vegna efnahagslegra áhrifa faraldursins. Væntanlega stendur þessum fyrirtækjum þá fyrst og fremst til boða að fá styrk til að endurráða starfsfólk í fyrra starfshlutfall. Hér er gert ráð fyrir að það geti komið til greiðslna í mesta lagi í fjóra mánuði á tímabilinu 1. júní 2021 til 30. september 2021. Dagsetning framlengingarinnar vakti nokkra athygli, að verið væri að framlengja þetta rétt fram yfir kosningar, en áætlað er að þetta geti náð til um 4.500 manns.

Í öðru lagi eru það útgjöld vegna atvinnuátaks sem kallað hefur verið Hefjum störf. Það er um 100 milljónum lægri upphæð, þ.e. 4.300 millj. kr. Markmiðið með því átaki er að skapa allt að 6.000–7.000 tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Ég kem aðeins inn á það aftur á eftir. Með öðrum orðum er ekki lögð sérstök áhersla á að skapa störf í einkageiranum, sem við þurfum þó mjög á að halda að einbeita okkur að til þess að auka skatttekjur ríkisins og standa undir m.a. opinberum störfum. Við þurfum sérstaklega að huga að því núna á þessum tímum. Maður veltir því fyrir sér hvort rétt sé að leggja eins mikla áherslu á að þetta fjármagn renni í opinberar stofnanir, eins og hér er nefnt sérstaklega, og í atvinnulífið að öðru leyti í ljósi þess að mun minna hefur verið um uppsagnir hjá hinu opinbera, mjög lítið í faraldrinum, og starfsöryggi þar hefur reynst meira en í atvinnulífinu að öðru leyti. Það vekur líka spurningar um hvað gerist eftir 30. september hjá þeim opinberu stofnunum sem eru með þessu væntanlega að bæta við nýjum störfum. Hvað gerist hvað þau störf varðar? Það er nefnilega alltaf hætta á því í aðgerðum ríkisins að þær leiði til þarfar sem það á síðan erfitt með að komast út úr. Aðalatriðið er að þetta er ekki gagnrýni á mikilvægi opinberra starfa, í rauninni þvert á móti, en við þurfum að fjölga störfum í einkageiranum til að geta staðið betur undir opinberu störfunum og borgað opinberum starfsmönnum góð laun, tryggt þeim viðeigandi tekjur. Svo er bætt við aðeins umfangsminni aðgerðum og ég kem kannski inn á það hér á eftir. Fyrst ætla ég að klára þessa umræðu um mikilvægi þess að þegar ráðist er í aðgerðir þá sé hugsað um langtímaáhrif þeirra.

Ég hef gagnrýnt það varðandi þetta frumvarp í heild að flest allt sem birtist í því hafi verið fyrirsjáanlegt þegar menn voru að vinna fjárlög. Ég velti því þá fyrir mér hvers vegna ekki var farin sú leið að hafa þetta þar. Hugsanlega að einhverju leyti vegna þess að menn hafa ekki verið með heildarplan og langtímasýn á þetta. Sumt af því sem hér er um að ræða hefur þróast til betri vegar og annars konar aðgerðir kannski verið ívið markvissari. Með öðrum orðum er eins og þetta hafi verið hannað miðað við þær aðstæður sem voru, en engu að síður beðið með að hrinda því í framkvæmd þar til nú.

Aðalatriðið er að núna þegar við erum að vinna okkur upp úr efnahagslegum áhrifum faraldursins verði til ný störf og ný verðmætasköpun. Eins og ég gat um þurfa þau störf og sú verðmætasköpun ekki hvað síst að verða til hjá einkareknu fyrirtækjunum, sem höfðu ekki sömu tekjutryggingu og opinberar stofnanir á meðan á faraldrinum stóð, til þess að skatttekjur ríkisins geti í framhaldinu staðið undir allri þeirri mikilvægu þjónustu sem ríkið veitir og haldið ríkisstarfsmönnum í vinnu á viðunandi kjörum.

Þá aðeins aftur að eðli þessara styrkja. Í frumvarpinu segir að Vinnumálastofnun muni, með leyfi forseta:

„… veita fyrirtækjum styrk vegna ráðningar einstaklings sem skráður hefur verið án atvinnu í a.m.k. þrjá mánuði. Kostnaður vegna aðgerðarinnar skiptist í tvennt. Annars vegar er um að ræða störf þar sem atvinnurekandi getur fengið ráðningarstyrk í allt að sex mánuði með atvinnuleitanda sem hefur verið án vinnu í 12 mánuði eða lengur.“

Svo er nefnt hvað þetta kostar. Hins vegar er um að ræða kostnað vegna sumarstarfa námsmanna í tvo og hálfan mánuð, sem sagt frekari sundurliðun á því atriði sem ég nefndi áðan.

Ég vil ítreka það, herra forseti, að ég leggst ekki gegn þessum aðgerðum. Það hefur staðið sem við sögðum þegar í upphafi faraldursins og alveg frá því að við kynntum fyrstu tillögur okkar, að við myndum styðja allar tillögur stjórnvalda sem miðuðu að því að lina áhrif faraldursins. Þetta eru engu að síður bráðabirgðaaðgerðir. Þetta er kannski á vissan hátt deyfilyf eða verkjalyf sem dugar í ákveðinn tíma. Svo þurfa störfin að verða sjálfbær, ef svo má segja. Þess vegna skiptir svo miklu máli — og það átti nú að verða meginefni ræðu minnar hér þó að ég hafi kannski varið miklum tíma í að rekja innganginn til að útskýra hvað ég væri að fara — en meginatriðið átti að vera að í aðgerðum sem duga bara til skamms tíma og veita ákveðinn frest má ekki líta fram hjá því hvernig menn ætla svo að halda áfram og byggja upp. Þar eru ýmis atriði sem hafa verið vanrækt, verð ég bara að segja, allan þann tíma sem á þessum faraldri hefur staðið og reyndar miklu lengur, allt þetta kjörtímabil. Ég sé að ég mun þurfa að koma aftur í ræðu til að fara yfir með hvaða hætti hægt sé að botna þá vísu sem birtist í þessum bráðabirgðaaðgerðunum ríkisstjórnarinnar.