151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[20:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að víkja hér aðeins að minnisblaði sem var sent til fjárlaganefndar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna fjáraukalagafrumvarpsins sem við ræðum hér. Það er margt athyglisvert í þessu minnisblaði og það sem ég vildi koma fyrst að er yfirlit á blaðsíðu 6 í þessu skjali yfir ráðstafanir vegna kórónuveirufaraldurs 2020 og 2021. Þar eru talin upp þau atriði sem hefur verið hrint í framkvæmd og þar á meðal er flýting á lækkun bankaskatts sem kostar ríkissjóð á þessu ári 5,7 milljarða kr. Nú er það þannig að ríkissjóður þarf náttúrlega á öllum sínum tekjustofnum að halda þegar hallinn á ríkissjóði er verulegur. Hann er 328 milljarðar á þessu ári. Þetta fjáraukalagafrumvarp eykur hallann um 8 milljarða kr. Það er því alveg ljóst að einhvern veginn þarf að mæta þessum mikla halla. Það er eitthvað sem ríkisstjórnin hefur ekki nokkra hugmynd um hvernig hún á að gera og hefur ekki varpað neinu ljósi á það. Nú eru t.d. þeir flokkar sem sitja í ríkisstjórn að gæla við að geta haldið sínu samstarfi áfram að loknum kosningum en þeir sýna hins vegar ekkert á spilin þegar kemur að því hvernig eigi að ná niður skuldum ríkissjóðs. Auðvitað verða að liggja fyrir einhverjar áætlanir um það vegna þess að það skiptir verulegu máli og er ekki gott fyrir efnahagslífið að ríkissjóður sé svo skuldsettur til einhvers tíma.

En maður spyr sig, af því ég nefndi bankaskattinn, herra forseti, hverju hefur þessi lækkun skilað? Hafa þjónustugjöld bankanna lækkað? Ég hef ekki orðið var við það. Þau eru geysilega há og bankarnir virðast innbyrðis alla vega ekki vera í mikilli samkeppni þegar kemur að þjónustugjöldum. Þetta er íþyngjandi fyrir mörg heimili, það er alveg klárt.

Annað er, jú, vextir hafa lækkað. En er það bönkunum að þakka? Nei, það held ég að sé ekki. Ég held að það séu fyrst og fremst þau tæki og tól sem Seðlabankinn hefur gripið til vegna niðursveiflu í efnahagslífinu. Á sama tíma sjáum við að hagnaður bankanna eykst heilmikið. Ég held að hagnaður af síðasta uppgjöri Arion banka hafi verið 12,5 milljarðar, að mig minnir. Á sama tíma voru þeir að segja upp 20 starfsmönnum. Ég spyr því: Hver var árangur af því að flýta lækkun bankaskattsins? Ég sé það ekki fyrir mér, herra forseti. Við í Miðflokknum lögðum fram breytingartillögu þess efnis að skatturinn myndi lækka í áföngum en því fylgdu ákveðin skilyrði, þ.e. að bankarnir gætu sýnt fram á að þeir væru búnir að lækka þjónustugjöld og lækka vexti. En þessi tillaga var felld hér í þinginu. Þetta var mjög góð tillaga og var svona öryggisventill fyrir okkur um að ef þeir sýndu ekki fram á neina viðleitni til þess að lækka þjónustugjöldin þá myndi skatturinn ekki lækka en Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir felldu þessa tillögu. Það er bara þannig. Þessi tillaga hefði skipt heimilin í landinu miklu máli þannig að það er margs að gæta í þessu þegar menn segja að þeir treysti því bara að bankarnir lækki gjöldin og vextina þegar svona aðgerð er sett fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. fjármálaráðherra gerði það, sagðist treysta bönkunum til þess en ég hef ekki orðið var við það að það hafi gerst.