151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald o.fl.

755. mál
[20:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hingað upp og tilkynna að ég hef lagt fram dagskrártillögu fyrir þingfund morgundagsins. Þannig vill til að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur lagt fram frumvarp, mjög mikilvægt frumvarp, til að koma til móts við bráðan vanda sjómanna á smábátum. Hún hefur verið með þá orðræðu víða að það sé einhvern veginn í ósköpunum stjórnarandstöðunni að kenna að það mál fái ekki framgang þrátt fyrir að hv. þingmaður sé formaður atvinnuveganefndar, þrátt fyrir að samflokksmaður hennar sé þingflokksformaðurinn sem semur fyrir hennar hönd og þrátt fyrir að samflokksmaður hennar sé forseti þingsins, Steingrímur J. Sigfússon. Þrátt fyrir að hv. þm. Smári McCarthy hafi í tvígang sagt það algjörlega skýrt að hann og við styðjum mál hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur heldur hún þessari orðræðu áfram. Því legg ég til að þetta mál hennar, þetta góða mál, verði fyrst á dagskrá á þingfundi morgundagsins svo það sé alveg skýrt að við styðjum málið og óskum eftir því að það sé tekið hér til umræðu sem fyrst.